Körfubolti

Fer Steve Nash til New York Knicks?

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Steve Nash, sem tvívegis hefur verið valinn besti leikmaður NBA deildarinnar, hefur ekki náð því að vinna meistaratitil líkt og fyrrum liðsfélagi hans hjá Dallas – Dirk Nowitzki. Nash hefur leikið með Phoenix Suns undanfarin ár og samningur hans við félagið rennur út eftir næstu leiktíð.

Nash er 36 ára gamall og á ekki mörg ár eftir í bransanum en bandarískir fjölmiðlar hafa sett fram þá samsæriskenningu að Nash sé á leiðinni til New York Knicks í skiptum fyrir Chauncey Billups.

Mike D'Antoni, þjálfari NY Knicks var áður þjálfari Phoenix þegar Nash var á hátindi ferilsins. Þeir náðu ekki að vinna meistaratitil saman hjá Suns og komust reyndar aldrei nálægt því. Knicks ætlar sér stóra hluti á næstu árum eftir að hafa fengið Carmelo Anthony til liðsins í vetur og s.l. haust samdi liðið við miðherjann Amare Stoudemire. Nash og Stoudemire þekkjast vel eftir að hafa leikið lengi saman hjá Phoenix Suns.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×