Enski boltinn

Mata neitaði Tottenham - vill spila í Meistaradeildinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Juan Mata var í sigurliði Spánar á Evrópumóti U21 árs liða í Danmörku í sumar.
Juan Mata var í sigurliði Spánar á Evrópumóti U21 árs liða í Danmörku í sumar. Nordic Photos/AFP
Óvinafélögin Arsenal og Tottenham hafa verið á höttunum eftir spænska landsliðsmanninum Juan Mata hjá Valencia undanfarnar vikur. Á sunnudaginn rann út ákvæði í samningi Mata við Valencia sem heimilaði honum að fara ef 25 milljóna evra tilboð bærist í leikmanninn.

Samkvæmt vefsíðu Guardian bauð Tottenham 25 milljónir evra í Mata um helgina. Valencia átti einskis kost en að leyfa Mata að ræða við Tottenham. Skemmst frá því að segja að Mata hafnaði Lundúnarliðinu.

Landsliðsmaðurinn spænski vill spila í Meistaradeildinni á næstu leiktíð en Tottenham komst ekki í keppnina í ár. Það tókst hins vegar Arsenal og félagið talið líklegasti áfangastaður Mata.

Forsvarsmenn Valencia fullyrða þó að þeir hafi engan áhuga á að selja Mata. Kaup félagsins á Sergio Canales til tveggja ára á lánssamningi frá Real Madrid voru talin gefa til kynna að Valencia-menn væru að búa sig undir brottför Mata.

Sú staðreynd að kaupverðsákvæðið í samningnum er runnið út þýðir að Valencia gæti krafist mun hærri upphæðar fyrir Mata. Ekki síst þar sem félagið hefur þegar fengið boð frá Tottenham upp á 25 milljónir evra.

Mata hefur spilað ellefu landsleiki fyrir Spán og skorað í þeim fjögur mörk. Hann á eftir fjögur ár af samningi sínum við Valencia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×