Fótbolti

Dondoni rekinn frá Cacliari tveimur vikum fyrir fyrsta leik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Donadoni var lykilmaður í sigursælu liði AC Milan á 9. og 10. áratugnum.
Donadoni var lykilmaður í sigursælu liði AC Milan á 9. og 10. áratugnum. Nordic Photos/AFP
Ítalska knattspyrnufélagið Cagliari rak í gær knattspyrnustjóra sinn Roberto Donadoni. Donadoni var ráðinn til Cagliari í nóvember og stýrði liðinu í 14. sæti í Serie A deildinni í vor.

„Knattspyrnufélagið Cagliari tilkynnir að Roberto Donadoni og allt starfsfólk hefur verið leyst frá störfum," segir á heimasíðu félagsins þar sem Donadoni er þakkað fyrir hans störf og óskað góðs gengis.

Donadoni tók við Cagliari í nóvember. Liðið lauk keppni í 14. sæti Serie A þrátt fyrir að lána markahæsta leikmann félagsins, Alssandro Matri, til Juventus á miðju tímabili. Matri skoraði tvívegis í 3-1 sigri Juventus á Cagliari og var síðar keyptur til Juventus.

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að Donadoni hafi verið afar ósáttur þegar David Suazo var ekki boðinn samningur hjá félaginu. Framherjinn frá Hondúras, sem spilaði á sínum tíma með félaginu, hafði æft með liðinu og hafði Donadoni hug á að bæta honum við leikmannahópinn. Stjórnin var á öðru máli.

Donadoni er fyrrum landsliðsþjálfari og landsliðsmaður Ítala. Hann var rekinn sem landsliðsþjálfari árið 2008 eftir dapurt gegni á Evópumótinu það sumar. Hann var rekinn frá Napólí hálfu ári síðar.

Tvær vikur eru í að ítalska knattspyrnutímabilið hefjist þ.e. ef samningar nást milli leikmanna og Serie A deildarinnar. Leikmenn hafa hótað verkfalli verði ekki orðið við þeirra kröfum er snúa að réttindum leikmanna gagnvart félögum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×