Enski boltinn

Barcelona að skipuleggja heimkomuhátíð Fabregas um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas
Cesc Fabregas Mynd/Nordic Photos/Getty
BBC hefur það eftir heimildarmönnum sínum í Barcelona að Evrópumeistararnir séu að undirbúa heimkomu Cesc Fabregas um helgina. Samkvæmt sömu heimildum eru nú 99 prósent líkur á því að Barcelona gangi frá kaupunum á Cesc frá Arsenal fyrir 35 milljónir punda.

Forráðamenn Arsenal segja samt að það gætu enn verið sólarhringar í það að félögin gangi frá sölunni en það má heyra á öllu að þeir hafi endanlega gefið upp alla von um að halda spænska landsliðsmanninum,.

Fabregas æfði með Arsenal-liðinu í væntanlega síðasta sinn í dag en hann er ekki í leikmannahópi liðsins sem mætir Newcastle í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á morgun.

Fabregas mun fljúga til Barcelona um helgina og verður líklega meðal áhorfenda þegar Real Madrid og Barcelona mætast í fyrri leik sínum í Meistarakeppninni á sunnudagskvöldið.

Fabregas hefur verið hjá Arsenal frá árinu 2003 þegar hann kom þangað sextán ára gamall eftir að hafa farið upp í gegnum unglingastarf Barca. Hann hefur verið fyrirliði Arsenal síðan 2008 eða síðan að hann var 21 árs gamall.

Carlos Puyol, fyrirliði Barcelona, gekk svo langt á twittersíðu sinni í dag að skrifa: „Velkominn heim. Ég er mjög ánægður með að þú sért kominn aftur."

Gerard Pique skrifaði jafnframt á sína twitter-síðu. „Hann er lokins kominn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×