Körfubolti

LeBron James bjartsýnn á að það verði NBA-tímabil í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Dwyane Wade.
LeBron James og Dwyane Wade. Mynd/Nordic Photos/Getty
LeBron James, leikmaður Miami Heat í NBA-körfuboltanum, er enn bjartsýnn á að það verði NBA-tímabil í vetur þótt að margir séu búnir að afskrifa tímabilið. Eigendur og leikmannasamtök deildarinnar eru enn langt frá því að ná samkomulagi um að enda verkfallið.

„Ég er að undirbúa mig fyrir tímabilið og ég trúi því að það verði tímabil í NBA-deildinni. Vonandi ná báðir aðilar saman sem fyrst," sagði LeBron James í viðtali við blaðamenn á Taívan. Hann er staddur þar í tveggja daga heimsókn.

Leikmenn hafa verið lokaðir úti síðan 1. júlí og í síðustu viku lét Billy Hunter, formaður leikmannasamtakana, hafa það eftir sér að það væri ólíklegt að NBA-tímabilið 2011-12 færi fram.

Það væri náttúrulega slæmt fyrir LeBron að missa af komandi tímabili ef hann ætlar að vinna þessa sjö til átta meistaratitla eins og markmiðið var þegar hann gerðist leikmaður Miami Heat í fyrrasumar.

LeBron verður 27 ára í árslok og á enn eftir að vinna sinn fyrsta NBA-meistaratitil á ferlinum. Michael Jordan var 28 ára þegar hann varð NBA-meistari í fyrsta sinn árið 1991. Jordan vann á endanum sex meistaratitla með Chicago Bulls liðinu.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×