Körfubolti

Fyrrum NBA-leikmaður ákærður fyrir morð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Crittenton á NBA-leik.
Crittenton á NBA-leik. Nordic Photos / Getty Images
Javaris Crittenton, fyrrum leikmaður í NBA-deildinni í körfubolta, hefur verið ákærður fyrir morð. Honum er gefið að sök að hafa myrt 22 ára gamla konu í Atlanta.

Konan var skotin til bana þann 19. ágúst síðastliðinn og samkvæmt fréttum frá Bandaríkjunum er Crittenton ekki í haldi og því eftirlýstur.

Talið er að Crittenton sé nú staddur í Los Angeles og er lögreglan í Atlanta í samstarfi við alríkislögregluna FBI í rannsókn málsins.

Konan, fjögurra barna móðir, var á gangi ásamt fleirum þegar hún var skotin af einhverjum í dökklituðum jeppling sem átti leið hjá.

Talið er að um hefndarverk hafi verið að ræða en Crittenton var rændur í apríl síðastliðnum. Útlit er fyrir að konan hafi verið skotin af slysni samkvæmt þeim sem stýra rannsókninni, enda hafi hún ekki verið skotmarkið.

Crittenton komst í fréttirnar þegar honum sinnaðist við þáverandi liðsfélaga sinn í Washington Wizards, Gilbert Arenas, tímabilið 2009-2010. Tveimur dögum eftir rifrildið kom Arenas með tvær byssur í búningsklefa félagsins, stillti þeim upp fyrir Crittenton og bað hann um að velja sér eina.

Crittenton dró þá sjálfur upp eigið vopn. Báðir voru kærðir fyrir vopnaburð og fengu skilorðsbundna dóma.

Crittenton kom fyrst til LA Lakers árið 2007, þá sem nýliði. Hann fékk lítið að spila og hefur flakkað á milli liða síðan þá, auk þess sem hann missti af heilu tímabili vegna ökklameiðsla. Hann hefur til að mynda spilað með félagsliði í Kína.

Hann á alls að baki 113 leiki í NBA-deildinni. Í þeim skoraði hann að meðaltali 5,3 stig og gaf 1,8 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×