Fótbolti

Wenger dæmdur í tveggja leikja bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Nordci Photos / Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur verið dæmdur í tveggja leikja bann fyrir að brjóta reglur þegar hann tók út leikbann í leik liðsins gegn Udinese í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í síðustu viku.

Wenger kom skilaboðum til varamannabekk Arsenal á meðan leiknum stóð. Það stangast á við reglur Knattspyrnusambands Evrópu og fékk Wenger að vita það í hálfleik.

„Við höfum ekkert að fela og við teljum að við höfum ekkert gert af okkur. Maður veit í raun aldrei hvað það felur í sig að dæma stjórann í bann. Ég átti engum samskiptum við menn á bekknum. Ég horfði á leikinn úr stúkunni og naut mín þar. Það var allt og sumt,“ sagði Wenger í samtali við enska fjölmiðla þegar UEFA tilkynnti að mál hans hefðu verið tekin til rannsóknar.

„Við töluðum við UEFA fyrir leikinn. Við fórum yfir reglurnar og ég fylgdi þeim algjörlega. Ég skil því ekki af hverju rannsóknin er.“

Forráðamenn UEFA eru greinilega ósammála Wenger og ljóst að hann missir af síðari leik Arsenal gegn Udinese, sem fer fram á Ítalíu á miðvikudagskvöldið. Arsenal vann fyrri leikinn, 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×