Körfubolti

Smá von: NBA-eigendurnir bökkuðu aðeins í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er kannski of snemmt að byrja að fagna.
Það er kannski of snemmt að byrja að fagna. Mynd/AP
Deiluaðilar í laundeilu NBA-deildarinnar færðust aðeins nær hvor öðrum á samningafundi sínum í gær þegar NBA-eigendurnir bökkuðu aðeins í kröfu sinni um fast launaþak sem leikmennirnir segja að þeir muni aldrei samþykkja.

Þetta voru fyrstu góðu fréttirnir í langan tíma sem kom frá launadeilu NBA-deildarinnar en hvort að þetta boði það að NBA-tímabilinu verði bjargað er hinsvegar önnur saga. Það verður hinsvegar annar fundur í dag og deiluaðilar eru að tala saman í New York.

Eigendur NBA-liðanna hafa barist hart fyrir því að það verði fast launþak í NBA-deildinni sem þýðir að liðin hafi fá tækifæri til að fara yfir launaþakið. Það hafa verið allskyns aukareglur í gangi sem hefur gefið félögunum tækifæri til að borga leikmönnum sínum betri laun.

Það sem eigendurnir lögðu á samningaborðið í nótt var það að lúxus-skatturinn yrði áfram en að hann yrði mun hærri eða dollar fyrir hvern dollar sem NBA-félögin færu yfir launaþakið. Það væri því mjög dýrt að fara yfir launaþakið en ekki ómögulegt.

Eigendurnir og leikmannasamtökin eru einnig að deila um hversu stóran hluta af heildatekjunum eigi að fara í laun leikmanna. Í dag fá leikmenn 57 prósent gróðans en eigendurnir vildu koma þeirri tölu langt fyrir neðan 50 prósent. Leikmenn hafa lagt til að þeir fái 54 prósent af heildartekjunum en þeir hafa fengið dræm viðbrögð við því frá eigendunum.

NBA-deildin á að hefjast 1.nóvember en NBA hefur þegar frestað fyrstu tveimur vikunum af undirbúningstímabilinu vegna verkfallsins. Það er því mikið undir á fundinum í dag því hann mun segja mikið til um það hvort viðræðurnar séu á réttri leið eða hvort að skref eigendanna í nótt hafi aðeins búið til falska von.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×