Körfubolti

Jordan græðir meiri pening í dag en þegar hann spilaði í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan hefur gaman af lífinu þessa dagana.
Michael Jordan hefur gaman af lífinu þessa dagana. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það er langt síðan að Michael Jordan lagði körfuboltaskóna á hilluna en hann græðir engu að síður á tá og fingri í dag í gegnum allskyns auglýsingasamninga. Jordan aflaði meira en 60 milljónir dollara á síðasta ári, rúma sjö milljarða íslenskra króna, samkvæmt upplýsingum frá Forbes eða meira en allir aðrir leikmenn NBA-deildarinnar í dag.

Jordan, sem er af flestum talinn vera besti körfuboltamaður allra tíma, er með samninga við fyrirtæki eins og Nike, Gatorade, Hanes, Upper Deck, 2K Sports og Five Star Fragrances.

Jordan á einnig fimm veitingastaði og bílasölu í Norður-Karólínu. Það er aðeins einn íþróttamaður sem hafði meiri tekjur en Jordan á síðasta ári og það var Tiger Woods samkvæmt upplýsingum frá Forbes.

Það sem er enn ótrúlegra að Jordan græðir meira í dag, 48 ára gamall, en hann fékk í laun þegar hann var að vinna alla titlana með Bullsliðinu á sínum tíma. Jordan var reyndar með 63 milljónir dollara í heildartekjur síðustu tvö tímabil sín í Chicago.

Fleiri fyrirtæki leitast eftir samningi við Jordan í dag en þegar hann var leikmaður og þá virðast þau einnig vera tilbúin að borga honum meira enda rjúka vörur þeirra út þegar Jordan-nafnið er bendlað við þær. Fyrir vikið verður besti körfuboltamaður sögunnar ríkari með hverjum deginum.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×