Körfubolti

Viðræðum aftur hætt - Ekki spilað í NBA í nóvember

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Billy Hunter, framkvæmdarstjóri leikmannasamtakanna.
Billy Hunter, framkvæmdarstjóri leikmannasamtakanna. Nordic Photos / Getty Images
Ekkert gengur í viðræðum deiluaðila í NBA-verkbanninu og hefur nú verið ákveðið að aflýsa leikjum sem áttu að fara fram frá 15.-30. nóvember næstkomandi.

Það þýðir að nýtt tímabil getur í fyrsta lagi hafist þann 1. desember en miðað við gang mála í viðræðunum verður það að teljast ólíklegt. Tímabilið átti að hefjast á þriðjudaginn næstkomandi en fyrstu tveimur vikum tímabilsins hafði þegar verið aflýst fyrir nokkru.

Samningur eiganda og leikmanna í NBA-deildinni um skiptingu tekna rann út í júní síðastliðnum og er nú deilt um hvernig skiptingunni skuli háttað. Eigendur félaganna vilja minnka hlut leikmannanna og benda á að flest félög hafi verið rekin með tapi á síðustu leiktíð.

Vilja þeir að tekjunum verið skipt til helminga en hingað til hafa leikmenn fengið 57 prósent teknanna.

Billy Hunter, framkvæmdarstjóri leikmannasamtakanna, segir að viðræður hafi einfaldlega siglt í strand. „Við höfum gefið ýmislegt frá okkur í þessum viðræðum en það reyndist ekki nóg. Við erum því ekki reiðubúnir til að halda viðræðum áfram eins og málin standa nú.“

David Stern, framkvæmdarstjóri NBA-deildarinnar, segir að Hunter hafi labbað frá borðinu þegar umræðan barst að því að færa hlut leikmanna niður fyrir 52 prósentin. Leikmenn munu hafa verið sáttir við að minnka sinn hlut í 52,5 prósent en ekki meir.

Það er ljóst að eftir því sem verkbannið lengist verða báðir aðilar af miklum tekjum. „Við þurfum að reikna upp á nýtt hversu mikið tekjutapið er,“ sagði Stern. „Og næsta tilboð okkar mun endurspegla þær gríðarlega háu fjárhæðir sem hafa tapast.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×