Körfubolti

NBA-deilan: Eigendur og leikmenn aftur hættir að tala saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blake Girffin mun ekki troða á næstunni.
Blake Girffin mun ekki troða á næstunni. Mynd/AP
Það fór ekki svo að langir og strangir samningafundir í NBA-deilunni skiluðu nýjum samningi því það slitnaði upp úr viðræðum eigenda NBA-liðanna og leikmannasamtakanna í gær eftir fimm tíma fund.

Deiluaðilar voru þá búnir að tala saman í tæpa 30 tíma á þremur sólarhringum og það hafði lekið út að þeir væru að nálgast hvorn annan. Eftir að fundinum lauk í gær er hinsvegar enginn nýr samningafundur á dagskránni.

David Stern, framkvæmdastjóri NBA-deildarinnar, var veikur í gær og kom ekki á fundinn en hann hafði hótað því að flauta af alla leiki fram að áramótum myndu samningar ekki nást í þessari viku.

Það er líklega það næsta sem gerist að NBA fresti fleiri leikjum en þeim hundrað sem töpuðust þegar fyrstu tvær vikur tímabilsins voru afskrifaðar.

Aðaldeilumálið er sem fyrr skipting á innkomu félaganna. Leikmenn höfðu fengið 57 prósent teknanna í gamla samningnum en eigendur vilja koma þeirri tölu niður í 50 prósent. Það fréttist í gær að leikmannasamtökin hafi lækkað sig úr 53 prósentum niður í 52.5 prósent en það þótti eigendunum ekki nóg.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×