St. Louis Cardinals er komið með 1-0 forystu í úrslitarimmu sinni gegn Texas Rangers í bandaríska hafnaboltanum. Leik liðanna lauk í nótt með 3-2 sigri Cardinals.
Ævintýri Kardinálanna heldur því áfram en liðið komst í úrslitakeppnina með ótrúlegum hætti eftir að hafa tryggt sér sæti í henni á lokadegi deildakeppninnar.
Allen Craig var hetja Cardinals í leiknum en hann náði höggi í sjöttu lotu sem gerði David Freese að hlaupa heim úr þriðju höfn. Reyndist það úrslitastig leiksins.
Leikurinn fór fram á Busch Stadium, heimavelli Cardinals. Liðin mætast þar aftur í nótt áður en rimman flytur sig um set til Arlington í Texas. Þar fara svo næstu þrír leikirnir fram, gerist þess þörf, en fjóra sigra þarf til að tryggja sér titilinn.
Sport