Fótbolti

Filippo Inzaghi: Ég get ennþá verið mikilvægur leikmaður fyrir AC Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Filippo Inzaghi.
Filippo Inzaghi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Filippo Inzaghi er orðinn 38 ára gamall og hefur nánast ekkert getað spilað með ítalska liðinu AC Milan á þessu ári vegna meiðsla. Inzaghi er samt sannfærður um að hann geti hjálpað Ac Milan liðinu á þessari leiktíð.

„Ég er búinn að æfa með liðinu í tvo mánuði og nú vil ég stíga fram og verða aftur mikilvægur fyrir þetta lið. Ég tel að ég hafi enn það sem til þarf til þess," sagði Filippo Inzaghi við ítalska blaðið Il Corriere dello Sport.

Inzaghi hefur verið að glíma við alvarleg hnémeiðsli en hann er nú búinn að ná sér að fullu. Hann hefur komið inn á sem varamaður í þremur leikjum en aðeins fengið að spila í samtals 28 mínútum í þeim.  Filippo Inzaghi náði aðeins að spila sex leiki á síðasta tímabili (2 mörk) og var síðast í byrjunarliði AC Milan í deildinni 18. september 2010.

„Ég er alltaf að hugsa um AC Milan og mun aldrei skapa einhver vandamál fyrir þetta félag. Ég elska stuðningsmennina og mér líður mjög vel þessa dagana en það væri synd ef ég get ekki endað ferilinn hjá AC Milan," sagði Filippo Inzaghi sem hefur spilað með AC Milan frá 2001. Samningur hans rennur út í vor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×