Körfubolti

NBA-leikmaður fluttur heim til mömmu og pabba til að spara pening

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andy Rautins (númer 11) í leik með New York Knicks í fyrravetur.
Andy Rautins (númer 11) í leik með New York Knicks í fyrravetur. Mynd/Nordic Photos/Getty
Andy Rautins, bakvörður NBA-liðsins New York Knicks, hefur orðið að flytja heim til foreldra sinna til þess að spara pening á meðan NBA-verkfallinu stendur. Rautins sem er 25 ára gamall fékk aftur sitt gamla herbergi og kann vel við matinn hennar mömmu sinnar.

Rautins var í aukahlutverki með Knicks-liðinu á sínu fyrsta tímabili og kom bara við sögu í fimm leikjum. Hann er frá Kanada en foreldrar hans búa rétt utan við Syracuse í New York fylki. Rautins stundaði háskólanám í Syracuse-skólanum.

„Það er æðislegt að fá heimalagaðan mat og þetta er líka frábært tækifæri til að eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Vanalega er ég mjög upptekinn á þessum tíma ársins en ég reyni bara að líta jákvætt á þetta. Þetta er gott útspil til að spara pening sem er eitthvað sem við NBA-leikmennirnir þurfum að hugsa um þessi misserin," sagði Andy Rautins.

New York Knicks notaði 38. valréttinn sinn í nýliðavalinu 2010 til að taka Andy Rautins sem var með 12,1 stig og 4,9 stoðsendingar að meðaltali á sínu síðasta ári með Syracuse-skólanum.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×