Sport

Þrjú Íslandsmet í fyrsta hluta ÍM í sundi - Anton bætti 11 ára met Arnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Valli
Íslandsmeistaramóti í sundi í 25 metra laug hófst með látum í kvöld en það voru sett þrjú Íslandsmet og fimm aldursflokkamet í fyrsta hluta mótsins. Mótið fer fram í Laugardalslauginni.

Inga Elin Cryer úr ÍA, Anton Sveinn McKee úr Ægi og Ragnheiður Ragnarsdóttir úr KR settu öll glæsileg Íslandsmet í kvöld.

Inga Elin Cryer úr ÍA setti fyrsta met kvöldsins þegar hún synti 800 metra skriðsund á tímanum 8.46.42 mínútum en gamla metið átti Sigrún Brá Sverrisdóttir og var það 8.46.47 mínútur.

Anton Sveinn McKee sló ellefu ára met Arnar Arnarssonar í næsta sundi sem var 1500 metra skriðsund. Anton Sveinn synti á 15.23.97 mínútum en gamla metið hans Arnar var 15.25.94 mínútur en það setti hann árið 2000.

Þriðja Íslandsmetið setti svo Ragnheiður Ragnarsdóttir í undanrásum í 100 metra fjórsundi en hún synti þá á tímanum 1.01.72 mínútum og bætti met Erlu Daggar Haraldsdóttur.

Fimm unglingamet voru einnig sett í kvöld.  Eygló Ósk Gústafsdóttir setti stúlknamet í 200 metra skriðsundi (2.00.40 mínútur) og stúlknasveit Ægis setti svo met í 4 x 200 metra skriðsundsboðsundi (8.40.70 mínútur) en sveitina skipuði þær Eygló Ósk Gústafsdóttir, Íris Emma Gunnarsdóttir, Guðlaug Edda Hannesdóttir og Rebekka Jaferian.

Tvö drengjamet voru einnig sett en Arnór Stefánsson úr SH bætti tvö bæði í sama sundinu. Arnór synti þá 1500 metra skriðsund á tímanum 16.32.96 mínútum en hann setti einnig met með því að synda fyrstu 800 metrana á tímanum 8.44.59 mínútur.

Ólafur Sigurðsson úr SH setti síðan sveinamet í 1500 metra skriðsundi á tímanum 18.19.99 mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×