Körfubolti

Fá NBA-áhugamenn jólagjöf? - viðræður í gang á ný á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Það er loksins eitthvað farið að gerast í NBA-deilunni því eigendur og leikmenn ætla að byrja að tala aftur formlega saman á morgun. Deiluaðilar munu byrja á því að koma í veg fyrir að deilan fari fyrir dómstóla en nokkrir leikmenn ákváðu að taka upp mál gegn NBA-deildinni í kjölfar þesss að þeir höfnuðu nýjasta tilboði eigendanna og leystu upp samtökin sín fyrir tíu dögum síðan.

Bandarískir fjölmiðlar hafa skrifað um það að nú hafi stefnan verið sett á það ná því að byrja nýtt tímabil á jóladag en síðustu tvo daga hafa deiluaðilar verið að hittast á fámennunm fundum til að reyna að koma málunum aftur á hreyfingu.

Nýjustu hugmyndirnar eru að hafa 66 leikja tímabil sem mun þá hefjast á jóladag sem eru alltaf stór dagur fyrir NBA-körfuboltann. David Stern, yfirmaður NBA-deildarinnar, segir að það taki 30 daga að koma nýju tímabili af stað eftir að samningar nást.

Ætli menn að hefja nýtt tímabil á jóladag þá þurfa samningar að nást í upphafi næstu viku en það mun væntanlega koma fljótlega í ljós á morgun hvort að Kjarnorkuveturinn í NBA-deildinni sé mögulega á enda og hvort NBA-áhugamenn fái jólagjöf frá eigendum og leikmönnum NBA-deildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×