Körfubolti

NBA: Nýliðinn Norris Cole sló í gegn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Norris Cole í leiknum í nótt.
Norris Cole í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images
Norris Cole skoraði 20 stig fyrir Miami, þar af sex á síðustu 90 sekúndunum, er liðið hafði betur gegn Boston Celtics í NBA-deildinni í nótt.

Cole hefur heldur betur slegið í gegn hjá stuðningsmönnum Miami en hann skoraði alls fjórtán stig í fjórða leikhlutanum. Þar af þrjár afar mikilvægar körfur á lokakafla leiksins.

Þríeykið öfluga var þó á vellinum líka - LeBron James skoraði 26 stig, Dwayne Wade 24 auk þess að gefa átta stoðsendingar, og Chris Bosh var með átján stig.

Hjá Boston var Ray Allen stigahæstur með 28 stig en hann hitti vel í leiknum. Rajon Rondo var með 22 stig og tólf stoðsendingar og Keyon Dooling skoraði átján stig.

Miami hefur nú unnið báða leiki sína til þessa á leiktíðinni og aðeins verið tvívegis undir í þeim - og það í samtals fjórtán sekúndur. Leikmenn liðsins refsuðu grimmilega fyrir hver einustu mistök sem Boston gerði og ljóst að Miami er til alls líklegt í vetur.

LA Lakers lék sinn þriðja leik á jafn mörgum dögum í nótt og vann sinn fyrsta leik á tímabilinu er liðið mætti Utah Jazz. Lokatölur voru 96-71 en Kobe Bryant var stigahæstur með 26 stig hjá Lakers.

Úrslit næturinnar:

Atlanta - New Jersey 106-70

Miami - Boston 115-107

Milwaukee - Minnesota 98-95

Portland - Sacramento 101-79

LA Lakers - Utah 96-71

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×