Körfubolti

NBA: Ótrúlegur endasprettur Chicago í sigri á Lakers - létt hjá Clippers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derrick Rose fer hér framhjá Kobe Bryant.
Derrick Rose fer hér framhjá Kobe Bryant. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það er búist við miklu af Chicago Bulls, Oklahoma City Thunder og Los Angeles Clippers í NBA-deildinni í körfubolta og þau unnu öll sína leiki þegar deildin fór af stað í nótt. Chicago Bulls þurfti reyndar magnaðan endasprett til að vinna Kobe Bryant og félaga í Staples Center.

Derrick Rose skoraði 22 stig og sigurkörfuna 4,8 sekúndum fyrir leikslok þegar Chicago Bulls vann 88-87 útisigur á Los Angeles Lakers. Besti maður liðsins var þó Luol Deng sem skoraði 9 af 21 stigi sínu í lokaleikhlutanum og spilaði frábæra vörn á Bryant.

Chicago var í ágætum málum í fyrri hálfleik og með sjö stiga forskot í hálfleik, 56-49. Baráttuglatt Lakers-liðið tók hinsvegar öll völd í seinni hálfleik og var 82-71 yfir þegar aðeins 3 mínútur og 44 sekúndur voru eftir.

Chicago lokaði þá vörninni, vann lokakaflann 17-5 og tryggði sér ótrúlegan sigur. Lakers-menn hjálpuðu sér ekki mikið með því að klikka á hverju vítinu á fætur öðrum á lokasprettinum.

Kobe Bryant kom Lakers í 87-81 þegar 54 sekúndur voru eftir af leiknum en klúðraði síðan síðustu tveimur sóknunum. Fyrst lét hann Luol Deng stela af sér boltanum og svo varði Deng frá honum lokaskotið. Bryant skoraði 28 stig en tapaði 8 boltum.

Kevin Durant skoraði 30 stig þegar Oklahoma City Thunder vann 97-89 sigur á Orlando Magic. Durant hefur verið stigakóngur undanfarin tvö tímabil og er líklegur til að taka þann þriðja. Hann hitti úr 11 af 19 skotum sínum og bætti við 6 stoðsendingum og 5 fráköstum.

James Harden var með 19 stig fyrir Thunder sem hélt Dwight Howard í aðeins 11 stigum. Ryan Anderson skoraði 25 stig fyrir Orlando og Jameer Nelson var með 18 stig.

Chris Paul var með 20 stig og 9 stoðsendingar þegar Los Angeles Clippers vann auðveldan 105-86 sigur á Golden State Warriors. Blake Griffin var með 22 stig og Chauncey Billups skoraði 21 stig.

Golden State lék sinn fyrsta leik undir stjórn Mark Jackson en þar var David Lee atkvæðamestur með 21 stig og 12 fráköst en Monta Ellis bætti við 15 stigum og 8 stoðsendingar.



Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

New York Knicks-Boston Celtics 106-104

Dallas Mavericks-Miami Heat 94-105

Los Angeles Lakers-Chicago Bulls 87-88

Oklahoma City Thunder-Orlando Magic 97-89

Golden State Warriors-Los Angeles Clippers 86-105

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×