Körfubolti

NBA í nótt: Wade tryggði Miami aftur sigur | Loksins vann Dallas

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
LeBron James í leiknum í nótt.
LeBron James í leiknum í nótt. Mynd/AP
Ellefu leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en Miami er enn taplaust eftir nauman sigur á Minnesota, 103-101.

Dwyane Wade tryggði liðinu sigur með körfu á lokasekúndunum í annað skipti á stuttum tíma en það gerði hann einnig gegn Charlotte á aðfaranótt fimmtudags.

LeBron James hélt upp á 27 ára afmælisdaginn sinn með því að skora 34 stig, gefa tíu stoðsendingar og taka átta fráköst. Wade var tæpur vegna meiðsla í fæti en skoraði samt nítján stig í leiknum.

Spánverjinn Ricky Rubio skoraði tólf stig, gaf tólf stoðsendingar og tók sex fráköst fyrir Minnesota. Kevin Love var einnig öflugur með 25 stig og tólf fráköst.

Minnesota var með forystuna, 100-99, þegar 55 sekúndur voru eftir til leiksloka en hið ógnarsterka lið Miami reyndist sterkari á lokakaflanum.

Meistararnir í Dallas unnu loksins sigur eftir að hafa tapað fyrstu þremur leikjum tímabilsins. Í nótt mættu þeir Toronto og unnu nokkuð þægilega, 99-86. Dirk Nowitzky skoraði átján stig en varamaðurinn Ian Mahinmi var stigahæstur með nítján.

Hefði Dallas tapað í nótt hefði það verið í fyrsta sinn í 42 ár sem að ríkjandi meistarar tapa fyrstu fjórum leikjum tímabilsins.

Derrick Rose var með 29 stig og sextán stoðsendingar fyrir Chicago sem vann LA Clippers, 114-101. Luol Deng og Joakim Noah voru báðir með nítján stig.

Hjá Clippers var Blake Griffin stigahæstur með 34 stig en hann tók einnig þrettán fráöst. Chris Paul var með fimmtán stig og fjórtán stoðsendingar.

Paul Pierce spilaði sinn fyrsta leik fyrir Boston sem vann loksins sinn fyrsta sigur á tímabilinu í nótt er liðið vann Detroit, 96-85. Detroit hefur tapað fyrstu þremur leikjum sínum á tímabilinu.

Úrslit næturinnar:

Charlotte - Orlando 79-100

Indiana - Cleveland 98-91

Boston - Detroit 96-85

Atlanta - New Jersey 105-98

Memphis - Houston 113-93

New Orleans - Phoenix 78-93

Minnesota - Miami 101-103

Milwaukee - Washington 102-81

Dallas - Toronto 99-86

Utah - Philadelphia 102-99

LA Clippers 101-114

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×