Körfubolti

NBA: San Antonio, Dallas og Chicago unnu öll í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shawn Marion fagnar í nótt.
Shawn Marion fagnar í nótt. Mynd/AP
San Antonio Spurs, Dallas Mavericks og Chicago Bulls unnu öll leiki sína í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og þá vann New York Knicks nágrannaslaginn við New Jersey Nets þrátt fyrir að leika án stjörnuleikmanns síns Amare Stoudemire.

Peja Stojakovic skoraði 22 stig þegar Dallas Mavericks vann 106-102 útisigur á Houston Rockets. Stojakovic hitti úr 4 af 6 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og er nú einn í 4. sætinu yfir flestar þriggja stiga körfur í sögu NBA-deildarinnar. Dirk Nowitzki var líka með 22 stig fyrir Dalls og Shawn Marion var með 14 stig og 9 fráköst. Dallas hefur unnið 12 af síðustu 14 leikjum sínum. Kyle Lowry skoraði 26 stig fyrir Houston.

Derrick Rose var með 23 stig þegar Chicago Bulls vann 97-88 útisigur á New Orleans Hornets. Carlos Boozer var með 17 stig fyrir Chicago-liðið sem vann öruggan sigur. Marcus Thornton skoraði 24 stig fyrir New Orleans og David West var með 17 stig en Hornets-liðið er búið að tapa 7 af síðustu 9 leikjum sínum.

Tony Parker og George Hill skoruðu báðir 18 stig þegar San Antonio Spurs vann 118-94 útisigur á Washington Wizards en besta lið NBA-deildarinnar hafði tapað óvænt fyrir Philadelphia kvöldið áður. Allir leikmenn San Antonio skoruðu í leiknum og liðið hitti úr meira en 60 prósent skota sinna. Cartier Martin og Andray Blatche voru báðir með 16 stig fyrir Washington.

Stephen Jackson fagnar sigurkörfu sinni.Mynd/AP

Stephen Jackson skoraði sigurkörfuna á síðustu sekúndunni þegar Charlotte Bobcats vann 88-86 sigur á Atlanta Hawks eftir að hafa lent mest 22 stigum undir í leiknum.

Jackson skoraði 32 stig í leiknum, Shaun Livingston var með 22 stig og Gerald Wallace bætti við 16 stigum og 13 fráköstum. Josh Smith skoraði 28 stig fyrir Atlanta sem var með 22 stiga forskot í öðrum leikhluta og 18 stiga forskot í þeim þriðja.

Wilson Chandler kom inn í byrjunarliðið fyrir hinn meidda Amare Stoudemire og skoraði 21 stig þegar New York Knicks vann 105-95 sigur á New Jersey Nets. Toney Douglas var með 19 stig og Landry Fields skoraði 14 stig fyrir New York sem hefði farið undir 50 prósent sigurhlutfall með tapi. Devin Harris skoraði 22 stig fyrir Nets.

Kevin Durant treður hér í nótt.Mynd/AP

Philadelphia fylgdi á eftir frábærum sigri á San Antonio í fyrrinótt með því að vinna 107-87 útisigur á Minnesota Timberwolves. Andre Iguodala skoraði 15 stig og Louis Williams var með 13 stig fyrir 76ers-liðið sem er búið að vinna 9 af 12 síðustu leikjum sínum.

Kevin Love náði fertugustu tvennu sinni í röð með því að skora 16 stig og taka 13 fráköst fyrir Minnesota sem hafði unnið tvo útileiki í röð á móti New Orleans og Houston.

Kevin Durant skoraði 10 af 35 stigum sínum í fjórða leikhluta þegar Oklahoma City Thunder vann 99-97 útisigur á Sacramento Kings. Þetta var fjórði útisigur Oklahoma City í röð. Russell Westbrook var með 22 stig fyrir Thunder-liðið en Tyreke Evans skoraði 30 stig fyrir Sacramento sem tapaði sínum fimmta leik í röð.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:
Vörn San Antonio er sterk.Mynd/AP

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Atlanta Hawks-Charlotte Bobcats 86-88

New Jersey Nets-New York Knicks 95-105

Washington Wizards-San Antonio Spurs 94-118

Minnesota Timberwolves-Philadelphia 76ers 87-107

New Orleans Hornets-Chicago Bulls 88-97

Houston Rockets-Dallas Mavericks 102-106

Milwaukee Bucks-Indiana Pacers 97-103

Sacramento Kings-Oklahoma City Thunder 97-99











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×