Körfubolti

NBA: Sex sigrar í röð hjá Miami, Boston vann Orlando

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade.
Dwyane Wade. Mynd/AP

Dwyane Wade átti flottan leik þegar Miami Heat vann 18 stiga sigur á Los Angeles Clippers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og Rajon Rondo var allt í öllu þegar Boston Celtics vann 11 stiga sigur á Orlando Magic. Amare Stoudemire skoraði 41 stig í sigri New York og Indiana Pacers byrjar afar vel undir stjórn Frank Vogel.

Dwyane Wade var með 28 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar í 97-79 sigri Miami Heat á Los Angeles Clippers en þetta var sjötti sigur liðsins í röð.

Chris Bosh var með 16 stig og Eddie House skoraði 15 stig en LeBron James lét sér nægja að skora bara 12 stig.

Blake Griffin, nýliðinn skemmtilegi hjá Clippers, náði sinni 42 tvennu á tímabilinu með því að skora 21 sitg og taka 16 fráköst.

Mynd/AP

Rajon Rondo skoraði 11 af 26 stigum sínum í þriðja leikhluta þegar Boston Celtics vann 91-80 sannfærandi heimasigur á Orlando Magic.

„Þeir vildu ekki yfirgefa Ray eða Paul og ég reyndi bara að vera agressívur," sagði Rondo eftir leikinn. „Hann fór illa með okkur og fór þangað sem hann vildi þegar hann vildi það," sagði Stan Van Gundy, þjálfari Orlando, um Rondo.

Paul Pierce skoraði 18 stig og Kevin Garnett var með 16 stig fyrir Boston sem vann leikinn þrátt fyrir að taka 30 skotum færra en Orlando í leiknum.

Dwight Howard var með 28 stig og 13 fráköst en Orlando-liðið hitti aðeins úr 3 af 24 þriggja stigaskotum sínum í leiknum og tapaði í fimmta sinn í síðustu átta leikjum.

Mynd/AP

Amare Stoudemire skoraði 41 stig og hitti úr 17 af 21 skoti sínu þegar New York Knicks vann 117-103 sigur á Philadelphia 76ers. Nýliðinn Landry Fields bætti við 25 stigum og 10 fráköstum en New York hefndi þarna fyrir tap á móti Sixers fyrir aðeins tveimur dögum.

Raymond Felton var með 13 stig og 13 fráköst fyrir Knicks en liðið hitti úr 59,7 prósent skota sinna í leiknum. Elton Brand skoraði 28 stig fyrir Philadelphia.

Indiana Pacers er búið að vinna fjóra fyrstu leiki sína undir stjórn Frank Vogel eftir að liðið vann 105-86 sigur á New Jersey Nets. Mike Dunleavy skoraði 17 stig fyrir Indiana þar sem sex leikmenn skoruðu tíu stig eða meira. Devin Harris og Brook Lopez skoruðu báðir 13 stig fyrir New Jersey.

Úrslit leikja í NBA-deildinni í nótt:
Mynd/AP
Miami Heat-Los Angeles Clippers 97-79

New Jersey Nets-Indiana Pacers 86-105

New York Knicks-Philadelphia 76ers 117-103

Boston Celtics-Orlando Magic 91-80





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×