Körfubolti

San Antonio fyrst í 40 sigurleiki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manu Ginobili í leiknum í nótt.
Manu Ginobili í leiknum í nótt. Mynd/AP
San Antonio Spurs komst fyrst liða í NBA-deildinni í 40 sigurleiki á tímabilinu er liðið hafði betur gegn Houston, 108-95.

Liðið er vitaskuld með besta árangur allra liða í NBA-deildinni en San Antonio hefur aðeins tapað sjö leikjum til þessa.

Meistarar Lakers hafa til að mynda „aðeins" unnið 33 leiki til þessa og efsta liðið í Austurdeildinni, Boston, hefur unnið 35.

San Antonio hefur aldrei áður náð að vinna 40 leiki svo snemma á tímabilinu sem segir ýmislegt um styrkleika liðsins í dag.

Manu Ginobili hefur verið frábær með liðinu í vetur og hann skoraði 22 stig í leiknum í nótt. Þetta var í átjánda sinn í röð sem að San Antonio vinnur á heimavelli.

Richard Jefferson skoraði átján stig fyrir San Antonio sem spilar alla sína leiki á útivelli næstu þrjár vikurnar.

Hjá Houston var Luis Scola stigahæstur með 23 stig auk þess sem hann tók tíu fráköst.

Minnesota vann Toronto, 103-87. Kevin Love var með 21 stig og tólf fráköst fyrir Minnesota en Toronto tapaði sínum ellefta leik í röð í nótt.

Memphis vann Washington, 107-93. Zach Randolph skoraði 24 stig og tók 20 fráköst fyrir Memphis. Darrell Arthur bætti vði 22 stigum.

Milwaukee vann New Jersey, 91-81. Andrew Bogut skoraði átján stig og tók átján fráköst fyrir Milwaukee.

Chicago vann Indiana, 110-89. Carlos Boozer skoraði 24 stig og tók tíu fráköst fyrir Chicago, Derrick Rose var með 20 stig og Luol Deng nítján.

Dallas vann Atlanta, 102-91. Dirk Nowitzky var með nítján stig og Jason Terry átján stig og ellefu stoðsendingar fyrir Dallas.

Sacramento vann New Orleans, 102-96. DeMarcus Cousins var með 25 stig, tólf fráköst og sjö stoðsendingar fyrir Sacramento. New Orleans var búið að vinna tíu leiki í röð fyrir leik liðanna í nótt.

LA Clippers vann Charlotte, 103-88. Blake Griffin skoraði 24 stig og tók tíu fráköst fyrir Clippers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×