Gagnrýni

Flogaveikikast hefst eftir 3… 2… 1…

Ryu og Wolverine takast á um hvor skarti betri hárgreiðslu.
Ryu og Wolverine takast á um hvor skarti betri hárgreiðslu.
Tölvuleikir

Marvel vs. Capcom 3: Fate of Two Worlds

Gagnrýni úr Poppi í Fréttablaðinu

Marvel vs. Capcom 3: Fate of Two Worlds er líklega leikur sem höfðar til allra nörda. Hér er búið að taka þverskurð af þessum tveimur heimum, það er að segja persónunum sem hafa gert þá fræga, og þeim att saman í flogaveikihvetjandi slagsmálaleik.

Hérna geta menn brugðið sér í hlutverk þekktra fígúra svo sem Wolverine, Spiderman, Hulk og Dead Pool og barið líftóruna úr persónum á borð við Dante, Albert Wesker, Chun-Li og Ryu. Leikmenn velja sér þrjár persónur af rúmlega 30 og geta svo spilað í gegnum frekar aumkunarverðan söguþráð leiksins eða tekist á við aðra á netinu. Öll framsetning leiksins er til fyrirmyndar. Leikurinn er í flottum teiknimyndastíl og er alltaf nóg um að vera á skjánum, stundum eiginlega of mikið. Það hversu oft skjárinn blikkar ætti að minnsta kosti að geta valdið nokkrum flogaveikiköstum.

Þeir sem hafa einhvern tímann spilað Street Fighter leik eða fyrri Marvel vs. Capcom leiki ættu að kannast vel við stjórnkerfi leiksins. Hérna ráða þeir ríkjum sem geta lært utan að langar runur af skipunum og eru færir um að slá þær inn nógu hratt. Takist það eru menn í góðum málum og leikurinn breytist í hálfgert litasýrutripp þar sem spilun leiksins verður svo hröð að augun ná ómögulega að móttaka allt sem gerist á skjánum.

Sumum myndi kannski þykja það gott að geta valið úr yfir 30 persónum en miðað við það að Marvel vs. Capcom 2 innihélt tæplega 60 persónur verður að segjast að úrvalið veldur sárum vonbrigðum. Til að gera málið enn leiðinlegra hafa framleiðendur leiksins kosið að stríða leikmönnum með því að skeyta inn í leikinn persónum sem notendur hafa engan möguleika á að spila. Ýmsar hetjur á borð við Daredevil og Ghostrider birtast í aukahlutverkum en verða líklega ekki aðgengilegar nema Capcom ákveði að bjóða upp á þær sem aukaefni, gegn greiðslu.

Marvel vs. Capcom 3 er afbragðs slagsmálaleikur og nær frábærlega að höfða til jafnt teiknimyndasögu- sem tölvuleikjanörda. Þeir sem hafa látið sig dreyma um að láta á það reyna hvort Ryu er meira hörkutól en Wolverine eða hvort Zero úr Megaman-seríunni geti eitthvað á móti Hulk geta nú skemmt sér konunglega við að komast að „sannleikanum".

Spilun: 5/5

Grafík: 4/5

Hljóð: 4/5

Ending: 4/5

Niðurstaða:4/5






Fleiri fréttir

Sjá meira


×