Gagnrýni

Eldri hjón úr pappa

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Bíó

Another Year

Leikstjóri: Mike Leigh

Aðalhlutverk: Jim Broadbent, Ruth Sheen, Lesley Manville, David Bradley, Peter Wight, Martin Savage, Imelda Staunton.

Hjónin Tom og Gerri Hepple hafa eytt ævinni saman og nú er farið að síga á seinni hlutann hjá þeim. Efri árin fara mjúkum höndum um þau, en vinafólk þeirra er allt meira og minna þjakað af einmanaleika og eftirsjá. Vinirnir reyna stundum á þolrif hjónanna, og þá sérstaklega vinnufélagi Gerri, hin einhleypa Mary, en hún er fimmtug kona sem á erfitt með að sætta sig við að vera ekki lengur tvítug. Hún rennir hýru auga til Joe, þrítugs sonar þeirra Hepple-hjóna, en háttalag hennar er stórfurðulegt og daðrið er augljóst.

Another Year er nýjasta mynd breska leikstjórans Mike Leigh, en hann á að baki glæstan feril og þessi mynd mun ekki varpa neinum skugga á hann. Löturhægt læðist myndin um í fyrsta gír og það eru persónurnar og samtölin sem sjá um stuðið. Hvergi er veikan blett að finna í leikarahópnum og ég geng svo langt að segja frammistöðu Lesley Manville þá allra bestu á síðasta ári. Það að hún hafi ekki sópað að sér verðlaunum er til marks um það að einhverjir sofi á verðinum. Hún stelur hverri einustu senu sem hún kemur fram í þrátt fyrir að mótleikararnir séu allir á heimsmælikvarða.

Þrátt fyrir að þau Tom og Gerri eigi að heita aðalpersónur er það ekki svo. Þau eru í raun bara límið sem heldur sögunni saman. Sagan er um vinina og vandamálin. Enda hljómar sú mynd óspennandi sem fjallar um hamingjusöm eldri hjón og ekkert meir, punktur og basta. Það er spurning hvort Leigh sé að vísa til hálfnafna þeirra, teiknimyndakattarins og músarinnar, Tom og Jerry.

Að hjónin séu svo slétt og felld að þau gætu allt eins verið úr pappa, eða teiknuð á blað.

Another Year spyr fleiri spurninga en hún svarar. Ken, drykkfelldur vinur hjónanna í mikilli yfirvigt, gæti fundið hamingjuna með Mary. Og hún gæti eflaust fundið hamingjuna með Ken. En neistann vantar. Já, og Mary finnst hann ógeðfelldur. Tom og Gerri fundu hvort annað og munu líklega lifa hamingjusöm til æviloka. Eru sumir bara einfaldlega heppnari en aðrir? Eða er hver sinnar gæfu smiður?

Niðurstaða: Bráðfyndin mynd um dapurlegt fólk. Sérstaklega ljúf með rauðvíni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×