Lífið

Þrumuguðinn Þór og danska dramað

Þrjár kvikmyndir eru frumsýndar um helgina og þær gætu vart verið ólíkari. Stórmyndin Thor eða Þór með Chris Hemsworth, Natalie Portman og Anthony Hopkins í helstu hlutverkum verður frumsýnd í Laugarásbíói. Þór er í myndinni dæmdur til refsingar á jörðinni fyrir kæruleysi og vanrækslu. Á meðan tekur hinn lævísi Loki völdin í Ásgarði og að endingu neyðist Þór til að kyngja stoltinu og bjarga heimkynnum sínum. Kenneth Branagh leikstýrir myndinni.

Danska verðlaunamyndin Hævnen eftir Susanne Bier hlaut bæði Golden Globe og Óskarsverðlaun sem besta erlenda myndin. Hævnen verður sýnd í Háskólabíói á vegum Græna ljóssins en hún, líkt og flestar myndir Bier, tekur á siðferðislegum atriðum eins og hefnd og fyrirgefningu. Þá þykir hún nokkuð beitt ádeila á danskt þjóðfélag, sem er ekki alveg eins slétt og fellt og það gefur sig út fyrir að vera.

Þriðja myndin er síðan Lincoln Lawyer sem Sambíóin frumsýna. Myndin skartar Matthew McConaughey í kunnuglegu hlutverki sleips lögfræðings með munninn fyrir neðan nefið sem tekur að sér mál glaumgosa en sá reynist vera úlfur í sauðargæru. Í öðrum hlutverkum eru þau Ryan Phillippe, Marisa Tomei og William H. Macy.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×