Skoðun

Sátt um Rammaáætlun

Katrín Júlíusdóttir skrifar
Eitt af stóru verkefnunum í orkumálum Íslands er að ná sátt og samstöðu meðal þjóðarinnar um hvar skuli virkja og hvar skuli vernda. Frá árinu 2007 hefur verið starfandi verkefnisstjórn um gerð Rammaáætlunar um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma.



Í Rammaáætlun eru allir hugsanlegir virkjunarkostir metnir og flokkaðir niður eftir langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta. Flokkarnir eru þrír; Verndarflokkur en í hann falla virkjunarhugmyndir sem ekki er talið rétt að ráðast í og landsvæði sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Nýtingarflokkur en í hann eru settir virkjanakostir sem talið er að ráðast megi í að uppfylltum öllum skilyrðum. Biðflokkur er þriðji flokkurinn en í hann falla virkjunar- og verndarkostir sem talið er að þurfi frekari skoðunar við. Áætlað er að á grunni tillagna verkefnisstjórnar Rammaáætlunar verði lögð fram tillaga til þingsályktunar á Alþingi í haust, um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem mun skapa Rammaáætlun ákveðna stöðu að lögum.

Segjum skilið við götótt lagaumhverfiGuðmundur Hörður Guðmundsson formaður Landverndar skrifar í gær grein sem birtist á vísir.is þar sem hann spyr hvort ætlun mín og ráðuneytis míns sé að slíta þann frið sem ríkt hefur um Rammaáætlun. Svarið við þeirri spurningu er nei.

Þann 2 maí sl. í viðtali við Ríkissjónvarpið kom fram að ég sem iðnaðarráðherra hefði talið það óheppilegt að rannsóknarleyfi fyrir rannsóknum í Grændal hefði verið veitt til Sunnlenskrar orku áður en ljóst væri hvort svæðið yrði sett í verndunarflokk í Rammaáætlun.

Eins og Guðmundur á að vita þá er ekki haft samráð við iðnaðarráðuneytið um leyfisveitingu sem þessa þar sem ákvörðunin er kæranleg til ráðherra. Eins benti ég á hinn 4. júní sl. á vísir.is að lagaumhverfið væri götótt hvað varðar rannsóknarleyfi og nauðsynlegt væri að koma þessum rannsóknarleyfum inn í lagaumhverfi rammaáætlunar. Einnig kom fram að ég óskaði eftir frekari rökstuðningi frá Orkustofnun fyrir veitingu rannsóknarleyfisins. Orkustofnun taldi að stofnuninni væri skylt að veita leyfi til rannsókna út frá núgildandi lögum þar sem skilyrðum fyrir leyfi til rannsókna væri fullnægt, sem staðfestir enn mikilvægi þess að við komum okkur sem fyrst inn í skýrt lagaumhverfi Rammaáætlunar.

Vafinn náttúrunnar meginRétt er að benda á að RARIK, fyrir hönd Sunnlenskrar orku hefur lýst því yfir að rannsóknarleyfi þeirra verði ekki nýtt fyrr en Rammaáætlun liggur fyrir og ber að þakka framlag þeirra við að ná sátt í málaflokknum. Við Guðmundur Hörður deilum vilja og áhuga á að Rammaáætlun verði leiðarljósið inn í framtíðina og skapi heildarsýn og sátt í viðkvæmum málaflokki. Með Rammaáætlun verður vafinn náttúrunnar megin á öllum stigum málsins. Um það hljótum við öll að geta verið sammála.




Skoðun

Sjá meira


×