Fastir pennar

Gosið og kvótinn

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Vestmannaeyjar eru rótgróinn útgerðarbær sem á allt sitt undir auðlindum hafsins. Því er rétt að leggja við eyrun þegar forsvarsmenn bæjarfélagsins tjá sig um hvernig nýtingu þeirra auðlinda skuli háttað. Í fyrradag lagði bæjarráð Vestmannaeyja fram umsögn um frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnunarlögum. Þar kemur fram að verði frumvarpið samþykkt muni það ríða útgerðarfyrirtækjum í bænum á slig og valda svo mikilli fólksfækkun að ekki „verður séð að aðrir viðburðir í sögu byggðar í Vestmannaeyjum muni hafa áður haft viðlík áhrif á samfélag Eyjamanna nema ef til vill eldgosið 1973 og Tyrkjaránið 1627".

Freistandi er að afskrifa svona upphrópanir sem skrum og áróður. Sýnum kjörnum fulltrúum Vestmannaeyinga hins vegar þá kurteisi að taka þá alvarlega og gefa fullyrðingum þeirra gaum.

Erfitt er að leggjast í raunhæfan samanburð á Tyrkjaráninu 1627 og hugsanlegum breytingum á kvótakerfinu með tilliti til íbúaþróunar. Látum það því liggja milli hluta. Vestmannaeyjagosið 1973 er nærtækara dæmi. Lítum betur á það.

Árið 1972 voru Vestmannaeyingar 5.179 talsins. Eftir gos 1973 fækkaði þeim snarlega. Lægstur varð íbúafjöldinn 4.369 manns árið 1974 og hafði þar með fækkað um 810 frá því fyrir gos. Ekki lítil blóðtaka það. Vestmannaeyingar réttu hins vegar furðu fljótt úr kútnum; frá 1975 fjölgaði þeim jafnt og stöðugt allt til ársins 1991. Þá var fjöldi íbúa orðinn 4.923, aðeins 256 sálum færri en árið fyrir gos. Það er allgóður árangur.

Árið 1991 varð hins vegar viðsnúningur á þessari þróun. Næstu sautján ár í röð fór Eyjamönnum fækkandi og voru árið 2008 ekki nema 4.055; 856 færri en þeir voru 1991.

Hér höfum við tvö tímabil, álíka löng. Það fyrra, sem við getum kallað eftirgosárin, byrjar á snarpri fólksfækkun í kjölfar náttúruhamfara en fljótlega fer íbúum aftur fjölgandi þar til þeir hafa næstum náð fyrri fjölda. Seinna tímabilið, frá 1991 til 2008, einkennist hins vegar af stöðugri fólksfækkun í sautján ár í röð. Hvernig sem á það er litið er samanburðurinn seinna tímabilinu í óhag. Ekki aðeins fækkaði Eyjamönnum meira á þessu tímabili en í kjölfar gossins, bæði í rauntölum og hlutfallslega, heldur var þróunin neikvæð allan tímann. Það var ekki fyrr en eftir bankahrunið sem Eyjamönnum tók að fjölga á nýjan leik og eru nú í kringum 4.200 – rúmlega 700 færri en þeir voru 1991 og rúmlega 160 færri en árið eftir gos.

Hvað gerðist árið 1991 sem olli því að Vestmannaeyingum hætti að fjölga og við tók langt tímabil fólksfækkunar? Svarið við því er sjálfsagt ekki einhlítt. Frjálst framsal aflaheimilda, sem var heimilað þetta ár, hefur varla haft mikil áhrif því hlutdeild Vestmanneyja í þorskkvóta á landsvísu hefur verið nokkurn veginn sú sama allt tímabilið. Hins vegar minnkaði sjálft aflamarkið smám saman. Í Vestmannaeyjum voru veidd um fjórtán þúsund tonn af þorski 1991 en aðeins um tíu þúsund tonn 2010. Með því fækkaði störfum.

Það kallar fram sterk hughrif að setja fram varnaðarorð með tilvísun í náttúruhamfarir. Til þess var leikurinn eflaust gerður hjá bæjarráði Vestmannaeyja. Sannleikurinn er aftur á móti sá að þróun byggðar í Vestmannaeyjum var verri eftir 1991 en árin eftir gos. Sú blóðtaka varð þrátt fyrir það fyrirkomulag í fiskveiðistjórnun sem bæjarráðið í Vestmannaeyjum segir að ekki megi hrófla við án þess að allt fari til fjandans.






×