Gagnrýni

Hamfarasálmar

Atli Fannar Bjarkason skrifar
Ham - Svik, harmur og dauði.
Ham - Svik, harmur og dauði.
Svik, harmur og dauði er stórkostleg plata á svo margan hátt að það er erfitt að útskýra það. Ég ætla samt að reyna. Fyrir utan að vera stórskemmtileg í þungarokklegu tilliti er svo margt við plötuna sem kemur spánskt fyrir sjónir að ég get eiginlega ekki beðið eftir að koma því í orð.

Fyrir mér hefur HAM alltaf verið til, þrátt fyrir að hljómsveitin hafi verið stofnuð fjórum árum eftir fæðingu mína. HAM starfaði í sex ár, kom svo nokkrum sinnum fram upp úr aldamótum, en hóf aftur störf árið 2006 og hefur komið fram óreglulega síðan þá. Svik, harmur og dauði er fyrsta hljóðversplata HAM frá árinu 1989, þegar Buffalo Virgin kom út.

Meðlimir HAM hafa getið sér gott orð með öðrum hljómsveitum og á öðrum sviðum á þessum áratugum sem liðu á milli plata. Óttarr Proppé hefur til dæmis farið á kostum með fríkrokksveitinni Dr. Spock og það þarf ekki að fjölyrða um afrek Sigurjóns Kjartanssonar í grínheiminum. Það er því sérstök þrekraun fyrir þá að stíga fram með heila breiðskífu af lögum sem eru samin eftir að þeir urðu þekktir fyrir annað. Fyrir vikið getur reynst erfitt að taka flutning þeirra alvarlega, enda er línan milli hláturs og gráts hárfín. Á þessari línu dansar HAM með stórskemmtilegum árangri. Lögin eru flest grípandi hamfarasálmar, textarnir frábærir og flutningur Sigurjóns og Óttarrs einhvers staðar á mörkum þess fyndna og harmræna. Þá má ég til með að nefna trommuleik Arnars Geirs Ómarssonar, sem er ekkert minna en frábær.

Platan hefst af miklum krafti á laginu Einskis son. Æðislegt. Næst hefst stórsmellurinn Dauð hóra, sem er besta lag plötunnar — stórkostlegur málmslagari um sveitastrák sem leiðist út í vændi áður en hann smitast af spænsku veikinni og deyr. Textinn er gott dæmi um ótakmarkað hugmyndaflug og öfundsverðan orðaforða Óttarrs Proppé. Ég ætla að spá því að lagið sem fylgir á eftir Dauðri hóru, Mitt líf, verði næsta lag hljómsveitarinnar sem fær að hljóma á öldum ljósvakans. Magnaður slagari.

Á meðal annarra frábærra laga á plötunni eru Sviksemi, Veisla Hertogans, Svartur hrafn og að sjálfsögðu lokalagið magnaða Ingimar (sem á eflaust eftir að virka sem dropinn sem holar geðheilsu þeirra sem bera þetta fagra nafn í framtíðinni). HAM nær ekki slíkum hæðum í lögunum Gamlir svikamenn á ferð og Heimamenn höfðu aldrei séð slíkan mann.

Meðlimir HAM eru óhræddir við að nýta klisjur úr þungarokksögunni sér til framdráttar. Byrjunin í smellinum Dauð hóra hefur til dæmis heyrst ótal oft áður og kirkjuklukkan í Alcoholismus Chronicus er jaskaðari klisja en hækkun í Eurovision-lagi. Það er í rauninni ekkert frumlegt við Harm, svik og dauða, þó að söngvarapar á borð við Sigurjón Kjartansson og Óttarr Proppé sé vandfundið. En HAM kemst upp með klisjurnar og gott betur. Þær virka sem vísanir í jarðveginn sem hljómsveitin er sprottin úr en ekki sem örvæntingarfull tilraun til að finna upp hjólið á ný.

Niðurstaða: Svik, harmur og dauði er stórkostleg plata. Hún er ekki frumleg, en unun er að hlusta á flutning Sigurjóns Kjartanssonar og Óttarrs Proppé á hárfínni línu þess fyndna og harmræna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×