Gagnrýni

Tinni og Kolbeinn í Tölvulandi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Ævintýri Tinna Tinni - kvikmynd 2011
Ævintýri Tinna Tinni - kvikmynd 2011
The Adventures of Tintin

Leikstjórn: Steven Spielberg

Leikarar: Jamie Bell, Andy Serkis, Simon Pegg, Nick Frost, Daniel Craig

Belgíski blaðasnápurinn Tinni er mættur á hvíta tjaldið í öllu sínu tölvuteiknaða veldi og það er sjálfur Steven Spielberg sem kom honum þangað. Í samvinnu við Peter Jackson hefur hann blandað saman söguþráðum nokkurra Tinnabóka og gert úr þeim kvikmynd sem er mikið sjónarspil. Þrívíddarteikningarnar eru svo glæsilegar í allri sinni nákvæmni að myndin lítur nánast út eins og leikin kvikmynd. Maður spyr sig samt í kjölfarið; eru þúsund þurrkaðir þorskhausar úr Þistilfirði betri þegar þeir eru teiknaðir í tölvu?

Myndin er fagmannlega framreidd fjölskylduskemmtun og útlitslega vankanta er hvergi að finna. Aðdáendur Tinna eru þó vísir til að verða spældir með eitt og annað. Ég man til dæmis ekki eftir því að Kolbeinn kafteinn hafi verið svona mikill vælukjói í bókunum. Hér er hann aumkunarverður komplexa-alki, í stað reiða og síbölvandi drykkjusvelgsins sem við þekkjum flest. Löng hasaratriði þar sem myndavélin fer um allt og þyngdaraflið gleymist um stund þykja vissulega móðins, en að hafa slík atriði í kvikmynd um Tinna passar illa. Gömlu sögurnar lögðu ávallt áherslu á hið dularfulla og hættulega, frekar en yfirkeyrðan hasar og bílaeltingaleiki.

Hið dularfulla og hættulega er þó blessunarlega enn til staðar. Menn eru skotnir, slegnir, stungnir og svæfðir með klóróformi, alveg eins og í bókunum góðu. En eins og með aðrar seinni tíma ævintýramyndir Spielbergs er Tinni einfaldlega of stílhreinn og steríll til að heilla fólk á sama máta og Indiana Jones gerði á níunda áratugnum og Júragarðurinn á þeim tíunda.

Niðurstaða: Ágætis fjölskyldufjör en Spielberg þarf að ydda blýantinn betur næst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×