Erlent

Segir mikið í húfi á loftslagsráðstefnu

Baráttufólk minnir á mikilvægi loftslagsráðstefnunnar í Suður-Afríku.nordicphotos/AFP
Baráttufólk minnir á mikilvægi loftslagsráðstefnunnar í Suður-Afríku.nordicphotos/AFP
Christiana Figueres, yfirmaður loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna, hvetur fulltrúa á loftslagsráðstefnunni í Suður-Afríku til þess að taka ábyrga afstöðu og komast að samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Ráðstefnan er sú sautjánda í röðinni frá þeirri fyrstu, sem haldin var í Rio de Janeiro árið 1992. Tilgangurinn er að finna leiðir til að koma í veg fyrir hlýnun jarðar af völdum útblásturs gróðurhúsalofttegunda.

Kyoto-samningurinn, sem gerður var á þriðju ráðstefnunni í Japan árið 1997, rennur út á næsta ári og þurfa aðildarríki ráðstefnunnar að komast að samkomulagi um það hvað við tekur. Dregist hefur árum saman að komast að slíku samkomulagi, meðal annars vegna ágreinings um það hvernig byrðarnar eigi að skiptast á milli auðugra landa og þróunarlanda.

Til umræðu á ráðstefnunni er, að sögn Figueres, „ekkert minna en áhrifaríkasta bylting sem mannkynið hefur séð í orkumálum, iðnaði og atferli.“

Bandaríkin, Japan og fleiri ríki vilja fresta enn frekar ákvörðun um framhaldið, og nú hafa Indland og Brasilía tekið undir það.

Lítil eyríki, sem eiga á hættu að sökkva í sæ takist ekki að stöðva þróunina, hafa lagt einna mesta áherslu á að samkomulag takist sem allra fyrst.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×