Jólin

Það var verið að baða allan daginn

"Við biðum spennt eftir að klukkan yrði sex því þá var stofan opnuð,“ rifjar Helga Haraldsdóttir húsfreyja upp.
"Við biðum spennt eftir að klukkan yrði sex því þá var stofan opnuð,“ rifjar Helga Haraldsdóttir húsfreyja upp.
Aðfangadagur var eini dagurinn þegar við systkinin fengum í skóinn. Það voru nærföt og sokkar því enginn mátti fara í jólaköttinn." Þannig byrjar Helga Haraldsdóttir að rifja upp æskujólin í Markholti í Mosfellssveit. Hún er næstyngst í tíu systkina hópi. Þau elstu voru farin að heiman þegar hún man fyrst eftir sér og komu með fjölskyldur sínar eftir mat á aðfangadagskvöld. „Þá var líf og fjör í Markholti."



Vatnið kælt í baðið


Enn býr Helga í Mosfellssveit, sem hefur breyst í bæ. Líf og fjör er í kringum hana, að minnsta kosti meðan blaðamaður stendur við, því inn streyma barnabörn og fá hlýjar móttökur. Þar fyrir utan sinnir Helga þremur störfum; er stuðningsfulltrúi í Lágafellsskóla, gjaldkeri hjá Starfsmannafélagi Mosfellsbæjar og ræstitæknir í Tónskóla Mosfellsbæjar.

En við ætluðum að tala um jólin. Jólabaðið á aðfangadag er Helgu minnisstætt. „Á þessum tíma var eiginlega ekkert kalt vatn í Mosfellssveitinni, bara sjóðandi heitt. Því þurfti að safna vatni í allar kirnur og kæla það til að að allir gætu farið í hreint baðvatn. Svo var hátíð ef snjór var á jörð því þá gátum við kælt með honum. Það var verið að baða allan daginn og síðan biðum við spennt eftir að klukkan yrði sex því þá var stofan opnuð sem mamma hafði verið að skreyta langt fram á nótt. Ég man alltaf hvað jólaserían á trénu var falleg, með myndskreyttum bjöllum í ýmsum litum."

Fjölskyldan í Markholti. Í fremri röð eru Marta Gunnlaug Guðmundsdóttir, Kolfinna, Lára, Helga og Hafsteinn Guðjónsson. Í aftari röð þeir Jón, Garðar, Guðmundur, Friðþjófur, Guðjón, Ragnar og Hilmar.Mynd/Þórir
Kótelettur á aðfangadag

Rjúpa var ekki á borðum í Markholti. „Mamma var af Ströndunum og ólst upp við að rjúpa væri fátækramatur. Hún eldaði svínakótelettur í raspi fyrir sig og okkur börnin en pabbi fékk lambasteik."

Í Markholti var nóg að bíta og brenna, að sögn Helgu. „Eplin voru keypt inn í heilum kössum og auðvitað stálumst við krakkarnir í kassana. Pabbi keypti líka niðursoðna ávexti í risastórum dósum. Það var gert gat á slíka dós og allur safinn soginn úr. Þegar átti að gæða sér á innihaldinu var það náttúrlega ónýtt. Mamma varð að líma kökudunkana aftur svo við kláruðum ekki úr þeim fyrir jól. Þetta eru svona dæmi um prakkarastrikin!"

Markholtssystkinin eru samheldin enn; sex þeirra búa í Mosfellsbæ og öll á suðvesturhorninu nema einn bróðir sem er þó ekki lengra frá en í Grundarfirði. Frjósemin er mikil í ættinni, að sögn Helgu.

Á jólaballi í Hlégarði. Garðar, Guðmundur, Helga, Jón og Friðþjófur.Mynd/Þorvaldur Ágústsson
„Skráðir afkomendur móður minnar voru 134 þegar hún dó fyrir þremur árum, einn fæddist daginn sem hún var kistulögð og síðan hafa margir bæst við. Dóttir mín er að tala um að starta jólaballi fyrir stórfjölskylduna í ár. Ég hef trú á að hún standi við það. Hún er svoddan skörungur." -gun






×