Handbolti

Alexander Petersson kjörinn íþróttamaður ársins

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alexander Petersson.
Alexander Petersson.

Handknattleiksmaðurinn Alexander Petersson var í kvöld kjörinn íþróttamaður ársins 2010. Kjörið er sögulegt að því leyti að Alexander er fyrsti maðurinn af erlendu bergi brotinn til þess að hljóta nafnbótina. Hann er fæddur í Lettlandi árið 1980 en hefur verið íslenskur ríkisborgari síðan 2004.

Þetta er í 55. sinn sem kosið er um íþróttamann ársins en það eru samtök íþróttafréttamanna sem standa að kjörinu.

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson varð annar í kjörinu og fimleikakonan Íris Mist Magnúsdóttir varð þriðja en það er besti árangur fimleikakonu frá upphafi í kjörinu.

Handboltamenn eru áberandi á topp tíu listanum að þessu sinni enda stóð landsliðið sig frábærlega á EM í Austurríki og margir lykilmanna liðsins einnig að gera góða hluti í Evrópuboltanum.

Alexander er sjötti handboltamaðurinn á níu árum sem kjörinn er íþróttamaður ársins.

Járnmaðurinn Alexander hefur unnið hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar á undanförnum árum með óeigingjörnum og baráttuglöðum leik sínum. Hann er algjör lykilmaður í landsliðinu og stóð sig líkt og vanalega frábærlega á EM.

Hann fékk fá tækifæri framan af ári hjá Flensburg en átti nær undantekningalaust góðan leik er hann fékk tækifæri. Hann söðlaði síðan um í sumar og gekk í raðir Fuchse Berlin sem Dagur Sigurðsson þjálfar.

Berlinarliðið hefur slegið í gegn í þýsku úrvalsdeildinni í vetur og komið öllum handboltaspekingum á óvart. Þar hefur Alexander farið mikinn og sýnt svo ekki verður um villst að hann er á meðal þeirra bestu.

Alexander er þess utan frábær fyrirmynd. Auðmjúkur í framkomu, harðduglegur atvinnumaður sem lætur verkin tala og hlífir sér hvergi fyrir félaga sína.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×