Körfubolti

NBA í nótt: Miami tapaði fyrir Boston í þriðja sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kevin Garnett í leiknum í nótt.
Kevin Garnett í leiknum í nótt. Mynd/AP

Miami Heat tapaði enn einu sinni fyrir Boston Celtics í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, í þetta sinn á útivelli með þriggja stiga mun, 85-82.

Boston hefur unnið allar þrjár viðureignir þessara liða í deildinni í vetur sem veit á gott fyrir þá grænklæddu ef liðin þurfa að mætast í úrslitakeppninni í vor.

Rajon Rondo var með þrefalda tvennu í leiknum en LeBron James misnotaði mikilvægt vítaskot þegar 12,5 sekúndur voru eftir af leiknum í nótt.

Miami lenti mest þrettán stigum undir í fjórða leikhluta en náði að minnka muninn í tvö stig þegar nítján sekúndur voru eftir af leiknum. James fiskaði villu en klikkaði á fyrra vítinu en nýtti það síðara. Boston komst í sókn og Glen Davis tókst að fiska villu. Hann nýtti bæði sín víti og munurinn því orðin þrjú stig.

Mike Miller reyndi þriggja stiga skot í lok leiksins en það geigaði og því vann Boston góðan sigur. Liðin mætast næst þann 10. apríl.

Boston hefur unnið tólf af síðustu þrettán leikjum sínum gegn Miami, þar með talið 4-1 sigur þegar liðin mættust í fyrstu umferð úrslitakeppninnar á síðasta tímabili.

Kevin Garnett var stigahæstur hjá Boston með nítján stig en Rondo var með ellefu stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar.

Hjá Miami skoraði Chris Bosh 24 stig, James 22 og Dwyane Wade sextán.

Orlando vann Lakers, 89-75. Dwight Howard skoraði 31 stig í leiknum og tók þrettán fráköst.

Washington vann Cleveland, 115-100. Þetta var mikilvægur sigur fyrir Washington sem hafði tapað 25 leikjum á útivelli í röð og var þar með farið að nálgast átján ára gamalt met Dallas Mavericks sem tapaði 29 útileikjum í röð

Cleveland var nýbúið að vinna sinn fyrsta leik eftir 26 tapleiki í röð (sem er met) er liðið tók á móti Washington í nótt. Nick Young skoraði 31 stig fyrir Washington og John Wall var með nítján stig og fjórtán stoðsendingar.

Memphis vann Denver, 116-108. Darrell Arthur skoraði 24 stig fyrir Miami sem er persónulegt met.

Portland vann Detroit, 105-100. LaMarcus Aldrige skoraði 36 stig og Wesley Matthews 24 fyrir Portland.

Sacramento vann Phoenix, 113-108. Donte Green skoraði nítján stig, þar af tólf í fjórða leikhluta.

Golden State vann Oklahoma city, 100-94. Monta Ellis skoraði 32 stig og David Lee 23 fyrir Golden State.

Toronto vann Clippers, 98-93. Andrea Bargnani skoraði 27 stig fyrir Toronto.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×