Viðskipti innlent

AGS: Lausn Icesavedeilunnar væru tímamót

Julie Kozack yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á Íslandi segir að lausn Icesavedeilunnar yrðu tímamót (milestone) á leið Íslands út úr kreppunni.

„Við fögnum nýja samningnum," segir Kozack. „Ef Alþingi samþykkir hann fæli það í sér tímamót á leið Íslands úr kreppunni."

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem AGS hélt í vikunni í tengslum við að fjórða endurskoðunin á áætlun AGS og Íslands var samþykkt. Þess má geta að í viljayfirlýsingu sem íslenska stjórnvöld gáfu í í tengslum við þessa endurskoðun kemur fram að ríkisstjórnin er fullviss um að Alþingi muni samþykkja Icesave.

Kozack segir að Icesavesamningurinn sem nú liggi fyrir sé mun hagstæðari en fyrri samningar. Út frá því sjónarmiði myndi hann styðja við eitt helsta markmið áætlunar sjóðsins og Íslands um að gera opinberar skuldir á Íslandi sjálfbærar.

Þá endurtók Kozcak það sem þegar hefur komið fram að áætlun AGS og Íslands hafi heppnast vel hingað til og að málin væru að þróast í rétta átt. Hún bendir m.a. á að gjaldeyrishöftin hafi hjálpað mikið til og afnema beri þau af varkárni. Hún segir að höftin hafi hingað til leitt til þess að ríkissjóður hafi getað fjármagnað sig innanlands á hagstæðum vöxtum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×