Jól

Sköpunarkraftur virkjaður

Ýmsar frumlegar hugmyndir fæðast þegar hópurinn hittist og sumar hverjar rata beinustu leið í jólapakkana.
Ýmsar frumlegar hugmyndir fæðast þegar hópurinn hittist og sumar hverjar rata beinustu leið í jólapakkana.

Fyrir hver jól kemur kvenleggurinn í móðurætt Sigrúnar Þóru Magnúsdóttur saman til að föndra. Ýmsar frumlegar hugmyndir fæðast af því tilefni og sumar hverjar rata beinustu leið í jólapakkana til vina og vandamanna.

„Það er komin löng hefð fyrir þessu, ég hef að minnsta kosti gert þetta alveg frá því að ég man eftir mér og finnst alltaf jafn skemmtilegt," segir Sigrún Þóra Magnúsdóttir, fjórtán ára, sem hittir konurnar í móðurættinni skömmu fyrir jólin ár hvert til að föndra.

Sigrún segir þær frænkur flestallar vera lunknar „föndurkonur" en þær eiga ekki langt að sækja hæfileikana þar sem amman Guðfinna Hjálmarsdóttir rekur Liti og föndur.

„Engin okkar kemst þó með tærnar þar sem hún amma er með hælana," bætir hún við og hlær. Alls kyns hugmyndir kvikna þegar hópurinn kemur saman og sumar verða að veglegum jólagjöfum að sögn Sigrúnar. Hún er þó ekki tilbúin að láta uppi hverjar þær verða í ár.

„Nei, það verður bara að koma í ljós," segir hún leyndardóms­full.- rve

Jólakrakkar og jólaengill

Það sem til þarf: skæri, föndurlím, nál og tvinni. Frauðegg 8 cm. 30 mm trékúla, litlar bjöllur, 15 mm hvítar eða rauðar trékúlur. 

Nef: skerið 10 mm trékúlu í tvennt. 

Búkur: prjónastrokkur 6 cm breidd, lengd 15 cm. 

Húfa: prjónastrokkur 4 cm breidd, lengd 12 cm. 

Handleggir: Prjónastrokkur: breidd 1,5 cm, lengd 18 cm. 

Trefill: prjónastrokkur breidd 1,5 cm, lengd 18 sm. 

Trépinni til að festa höfuð við búk. 8 stk. fjaðrir í engil.

Búkur: Klæðið prjónastrokk yfir frauðegg, mjórri endinn upp, saumið fyrir annan endann, rúllið upp á hinn, stingið trépinna í þar sem saumað var, límið trékúluna á pinnann.

Húfa: Snúið strokknum sem er í húfunni við, bindið fyrir endann; snúið honum aftur við; saumið perlur eða bjöllur á; rúllið smá upp á opna endann og setjið á höfuðið hálfa trékúlu límda á sem nef.

Hendur: Brjótið inn á báða enda strokks og saumið trékúlur eða bjöllur á endana, límið hendur á við háls. Trefill: brjótið inn á báða enda á prjónastrokk og saumið bjöllur eða trékúlur á endana.

Allt efni í uppskriftunum fæst í verslunum Litir og Föndur Skólavörðustíg 12 Reykjavík og Smiðjuvegi 4 Kópavogi. Hönnun: Guðfinna Hjálmarsdóttir.

Kertaskreyting

Allir hafa gaman af því að skreyta kerti. Hægt er að skera út vaxþynnurnar sem notaðar eru til skreytinga, nálar eru hentugar fyrir yngstu kynslóðina. Vaxperlur og glimmerlím eru skemmtileg viðbót.

Byrjið að draga mynstrið á pappír. Skrifið tilheyrandi lit inn á hvern litaflöt, klippið hvern litaflöt út og leggið yfir þann lit á vaxinu sem hefur verið merkt við. Skerið svo vaxið út eftir mynstrunum.

Strjúkið kertið allt með mjúkum klút, raðið bútunum á kertið eins og myndin sýnir. Þrýstið svo vaxflötunum að kertinu, strjúkið samskeyti vel saman. Skreytið með glimmeri og vaxperlum.

Ljósker

Pússið vel glas eða krukku, hnoðið hvítan, grænan og rauðan Skulpey-bökunarleir mjúkan og fletjið út með kökukefli. Dragið mynstrið á pappír, klippið það út og leggið yfir viðeigandi hverju sinni.

Skerið því næst útflattan leir út eftir mynstrinu. Þrýstið leirformunum þéttingsfast þar sem þau eiga að vera á glasi. Látið leirfleti snertast vel svo hann haldist á glerinu.

Snjókarlar búnir til úr leirkúlum skornum í tvennt og þrýst að gleri.

Hersla á Skulpey-bökunarleir:

Setjið gler sem þið hafið skreytt með bökunarleir í miðjan bakarofn, stillið á 130°C. Þegar hann er komin í þann hita er ofn hafður á 130°C í 30 mínútur, slökkvið síðan. Alls ekki opna ofn fyrr en hann er orðin kaldur, annars er hætta á að gler springi.








×