Körfubolti

NBA í nótt: Þriðji sigur Lakers í röð | Oklahoma enn taplaust

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andrew Bynum verst Rudy Fernandez, leikmanni Denver, í leiknum í nótt.
Andrew Bynum verst Rudy Fernandez, leikmanni Denver, í leiknum í nótt. Mynd/AP
Andrew Bynum spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu og átti góðan leik þegar að LA Lakers vann Denver Nuggets í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 92-89.

Bynum þurfti að byrja tímabilið með því að taka út fjögurra leikja bann vegna brots hans á JJ Barea, þáverandi leikmanni Dallas, í leik liðanna í úrslitakeppninni í vor.

Bynum nýtti alls þrettán af átján skotum sínum í leiknum, skoraði 29 stig og tók þrettán fráköst. Kobe Bryant var með sautján stig, tíu fráköst og níu stoðsendingar.

Lakers tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum á tímabilinu en hefur síðan þá snúið genginu við og unnið þrjá leiki í röð.

Oklahoma City hefur byrjað frábærlega á tímabilinu og unnið fimm fyrstu leiki sína. Liðið vann Phoenix í gær, 107-97, en Russell Westbrook skoraði átján stig fyrir liðið í leiknum. Daequan Cook setti niður fjögur þriggja stiga skot í röð í fyrri hálfleik en leikurinn náði aldrei að vera spennandi.

Kevin Durant skoraði tólf stig í leiknum fyrir Oklahoma. Hefði hann skorað minnst 30 stig hefði hann verið fyrsti leikmaðurinn síðan Michael Jordan að skora 30 stig eða meira í fyrstu fimm leikjum tímabilsins. Það gerði hann fyrir 25 árum síðan.

San Antonio spilaði vel gegn Utah í gær, sérstaklega Manu Ginobili. San Antonio vann leikinn, 104-89, og Ginobili skoraði 23 stig, þar af fjórtán í öðrum leikhluta. Alls nýtti hann níu af tíu skotum sínum utan af velli, þar af fimm af sex þriggja stiga tilraunum.

Gregg Popovich, þjálfari San Antonio, fagnaði í nótt sínum 800. sigri á ferlinum. Er hann fjórtándi þjálfarinn í sögu deildarinnar til að ná þeim áfanga.

Úrslitin í nótt:

LA Lakers - Denver Nuggets 92-89

Detroit Pistons - Indiana Pacers 96-88

Houston Rockets - Atlanta Hawks 95-84

Oklahoma City Thunder - Phoenix Suns 107-97

Sacramento Kings - New York Knicks 92-114

San Antonio Spurs - Utah Jazz 104-89

Golden State Warriors - Philadelphia 76'ers 79-107

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×