Enski boltinn

Pulis hvílir níu menn í seinni leiknum gegn Valencia

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Pulis, stjóri Stoke.
Tony Pulis, stjóri Stoke. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tony Pulis, stjóri Stoke, hefur augljóslega ekki mikla trú á því að liðið sitt geti slegið spænska liðið Valencia út úr 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Valencia vann fyrri leikinn 1-0 á Britannia en sá seinni fer fram á Spáni í dag.

Pulis ákvað að skilja níu fastamenn eftir heima til að hvíla þá fyrir leikinn á móti Swansea í ensku úrvalsdeildinni um helgina en sá leikur verður sá fjórði hjá Stoke-liðinu á síðustu tíu dögum.

Peter Crouch, Ryan Shawcross, Matthew Etherington, Jon Walters, Marc Wilson, Andy Wilkinson, Matthew Upson, Dean Whitehead og Glenn Whelan "sluppu" allir við Spánarferðina og Pulis verður aðeins með fjóra varamenn á Mestalla-vellinum í Valencia.

„Ég verð vonsvikinn ef við gerum þetta ekki að leik. Ég vil ekki gefa upp byrjunarliðið mitt strax en þetta verður sterkt byrjunarlið. Ég er síðan eð tvo eða þrjá menn sem ég get sett inn á til að bæta leik liðsins. Ég er ánægður með þá leikmenn sem ég er með," sagði Tony Pulis.

„Ég er með varnarlínu af landsliðsmönnum og markvörðurinn er líka landsliðsmaður. Ég er með þrjá landsliðsmenn á miðjunni og tveir af þrír framherjum liðsins eru líka landsliðsmenn. Fyrirliði liðsins hefur einnig spilað landsleik. Þetta er ekki lélegt lið," sagði Pulis.

3500 stuðningsmenn Stoke ferðuðust alla leið til Valencia og þeir verða örugglega ekki alltof ánægðir að sjá stjóra sinn tefla fram hálfgerðu varaliði í þessum stóra leik enda ekki á hverjum degi sem Stoke spilar við Valencia í Evrópukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×