Fótbolti

Morosini fékk heiðurslíkfylgd um heimavöll Livorno

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Liðsfélagar Piermario Morosini og þúsundir stuðningsmanna Livorno minntust hans í dag þremur dögum eftir að hann fékk hjartaáfall og lést í miðjum leik Livorno og Pescara í ítölsku b-deildinni. Morosini verður jarðsunginn á morgun í heimabæ sínum Bergamo.

Kistan hans Piermario Morosini var keyrð hring í kringum Armando Picchi leikvanginn við sérstaka viðhöfn í dag og á sama tíma stilltu liðsfélagar hans sér upp klæddir Livorno-treyjum númer 25 til heiðurs Morosini. Lag Livorno-liðsins var síðan leikið undir en stuðningsmenn félagsins fjölmenntu í stúkuna.

Öllum leikjum á Ítalíu var frestað um helgina í kjölfar fréttanna af láti Piermario Morosini og ítalska sambandið hefur nú gefið það út að mínútuþögn verði fyrir alla leiki á Ítalíu fram á sunnudag.

Piermario Morosini var 25 ára miðjumaður sem var hjá Livorno á láni frá Udinese. Hann lék með yngri landsliðum Ítala þar á meðal 18 leiki með 21 árs landsliðinu frá 2006 til 2009.

Morosini dó tæpum mánuði eftir að tókst að bjarga Fabrice Muamba sem fékk hjartastopp í bikarleik Tottenham og Bolton á White Hart Lane. Eldri systir hans, sem er fötluð, á nú engan að en fær að búa hjá Antonio Di Natale, fyrirliða og aðalstjörnu Udinese-liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×