Hin árlega E3 tölvuleikjaráðstefna stendur nú sem hæst í Los Angeles. Þar gefst tölvuleikjaframleiðendum tækifæri á að ræða við viðskiptavini sína og spilara og kynna helstu nýjungar sínar.
Sem fyrr var gríðarleg eftirvænting fyrir kynningu Microsoft en leikjatölva fyrirtækisins, Xbox 360, er ein sú vinsælasta í heimi.
Margt bar á góma í ræðu Microsoft en það sem vakti hvað mesta athygli var nýstárleg tækni sem fyrirtækið hefur haft í þróun síðustu mánuði. Nýjungin er kölluð Xbox SmartGlass en í henni sameinast öll helstu afþreyingartæki heimilsins.
Þannig munu notendur geta stjórnað leikjatölvu, sjónvarpi og tölvum í gegnum spjaldtölvur sem eru knúnar af stýrikerfi Microsoft.
„Xbox SmartGlass virkar með öllum tækjum heimilisins: sjónvarpið, snjallsíminn og spjaldtölvan," sagði Marc Whitten, stjórnandi Xbox Live þjónustunnar. „SmartGlass breytir öllum sjónvörpum í snjall-sjónvörp."
Þá var stutt kynningarmyndband frumsýnt þar sem Xbox SmartGlass var notað til að stjórna tölvuleiknum Halo 4 í gegnum Xbox leikjatölvuna.
Hægt er að sjá myndbandið hér fyrir ofan.
