Innlent

Segja að forseti eigi ekki að skipta sér af pólitískum deilumálum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ari Trausti Guðmundsson.
Ari Trausti Guðmundsson.
Forseti Íslands á ekki að skipta sér að pólitískum deilumálum heldur hvetja til upplýstrar umræðu um málefni líðandi stundar. Þetta er mat Hannesar Bjarnasonar og Ara Trausta Guðmundssonar, forsetaframbjóðenda.

Ari Trausti og Hannes voru gestir Sigurjóns M. Egilssonar, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Hannes segir að forseti þurfi að vera sameiningartákn og geti því ekki alltaf tekið afstöðu með eða á móti í pólitískum deilumálum.

„Forseti verður alltaf þátttakandi í samfélagspólitíkinni af því að hann á að vera öryggisventill á það lýðræði, hann á að mínu mati að halda sig fjarri flokkapólitíkinni," segir Hannes.

Ari Trausti tekur undir þetta.

„Forsetinn fer varlega, hann er maður orðsins. hann getur tekið þátt í umræðum, hann getur varpað fram spurningum og efnt til umræðanna og gert fullt af slíkum hlutum en hann forðast það að vera með eða á móti einstökum deilumálum í samfélaginu," segir Ari Trausti.

Hannes segir að forseti verði að setja sér skýrar siðareglur þegar kemur að kynningarmálum fyrir íslensk fyrirtæki í útlöndum.

„Það er mikilvægt af því að þá skýrir maður hvað fólk getur vænst af forsetanum á ákveðnum sviðum. þess vegna er það mjög mikilvægt," segir Hannes.

„Ég álít hlutverk forsetans á erlendri grund, gríðarlega mikilvægt. Það er miklu meira en einhver fyrirtæki. Það er yfir höfuð íslensk menning íslenskt atvinnulíf og hlutverk hans þar er að tala máli fólksins, þjóðarinnar, hann þarf hins vegar að gæta jafnræðis, hann getur ekki gengið fram fyrir skjöldu og teymt eitthvað eitt fyrirtæki," segir Ari Trausti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×