Innlent

Óraunhæft að forseti leggi fram frumvarp

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Forsetaframbjóðendur eru ósammála um það hvort forseti geti lagt fram frumvarp. Andrea Ólafsdóttir telur að forseti geti lagt fram slíkt frumvarp, en það myndi hann gera í fullu samráði við forsætisráðherra. Ari Trausti líka. „Eins og ég les stjórnarskrána þá getur hann það," sagði Ari Trausti Guðmundsson. En hann sagði að forsetinn yrði algjörlega áhrifalaus um það hvað yrði um slíkt frumvarp. Forsetinn yrði að gera þetta í samráði við forsætisráðherra.

Hannes Guðmundsson tók í svipaðan streng og Ari Trausti. „Það er samvinna sem skilar mestum árangri," sagði Hannes Guðmundsson og benti á að það þyrfti samvinnu forsetans og forsætisráðherra.

„Umræðan um það að leggja fram frumvarp er svona lagatæknilegt," sagði Herdís Þorgeirsdóttir. Hún telur að forseti geti lagt fram frumvarp samkvæmt stjórnarskránni en það sé ekki raunhæft.

Þóra Arnórsdóttir telur einfaldlega að það sé ekki hlutverk forsetans að leggja fram slíkt frumvarp. Ólafur Ragnar Grímsson sagði að það myndi vera innantóm aðgerð ef forsetinn myndi leggja fram slíkt frumvarp. Nyti frumvarpið ekki stuðnings þingmanna myndi það aldrei fá framgang. Ef þingmenn styddu frumvarpið þá myndu þeir væntanlega leggja það fram sjálfir.

Forsetaframbjóðendur tókust á í Hörpu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×