Innlent

Herdís og Andrea vilja opið bókhald

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Herdís Þorgeirsdóttir og Andrea J. Ólafsdóttir, forsetaframbjóðendur.
Herdís Þorgeirsdóttir og Andrea J. Ólafsdóttir, forsetaframbjóðendur.
Andrea J. Ólafsdóttir og Herdís Þorgeirsdóttir hafa farið fram á að meðframbjóðendur sínir opni bókhald sitt og láti kjósendur vita hvaðan fjárframlög koma.

„Það er eðlileg krafa í öllum kosningum," segir í fréttatilkynningu frá framboði Andreu. „Sérstaklega í ljósi þess hvað kemur fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis."

Þá segir Andrea að hún hafi ákveðið að þiggja enga styrki frá fyrirtækjum — hún hafi þó þegið föt að láni frá íslenskum hönnuðum og þiggur sjálfboðavinnu við framboðið.

„Á lokaspretti kosningabaráttunnar auglýsir einn frambjóðandi mjög víða," segir í tilkynningunni en þar er vísað til auglýsinga Þóru Arnórsdóttur, forsetaframbjóðanda. „Það er eðlileg krafa kjósenda að vita hvaðan peningarnir koma sem greiða svo dýrkeyptar auglýsingar til að styðja þann frambjóðanda í embætti forseta — embætti sem er og verður alltaf pólitískt í eðli sínu þar sem það er hluti af stjórnskipan landsins."

Herdís tekur í sama streng á Facebook síðu sinni: „Ég hef skorað á aðra frambjóðendur til embættis forseta Íslands að sýna íslensku þjóðinni þá virðingu að opna bókhald sitt strax svo að kjósendur séu upplýstir um það hvaðan peningar að baki framboðunum koma áður en þeir ganga að kjörborðinu þann 30. júní næstkomandi."

„Hvet aðra frambjóðendur til embættis forseta Íslands að opna bókhald framboðs síns," skrifar Herdís. „Svo að kjósendur viti hvort þetta eru „2007-frambjóðendur" áður en þeir kjósa."

Hægt er að sjá fréttatilkynningu Andreu í heild sinni hér fyrir neðan:

Allir frambjóðendur opni bókhald sitt fyrir kosningar


Ég var fyrst til að skora á alla forsetaframbjóðendur á fundinum í Iðnó þann 30. maí að opna bókhaldið sitt og láta kjósendur vita hvaðan fjárframlög koma. Ég geri það aftur núna. Herdís Þorgeirsdóttir hefur tekið undir þessa áskorun frá mér og hún er jafnframt með opið bókhald eins og ég sjálf. Það er eðlileg krafa í öllum kosningum – sérstaklega í ljósi þess hvað kemur fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis.

Áttunda bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis ber heitið Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Í kafla II. 3 segir:„Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna". Meðal lærdóma sem í skýrslunni er sagt að draga þurfi er að:

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins."


Hátt í 70% þjóðarinnar (Gallup könnun sept 2010) vilja aðskilja stjórnmálaöfl frá viðskiptalífinu og ægivaldi fjármagnsins. Ég vil vera gott fordæmi hvað varðar aðskilnað stjórnmála og viðskiptalífs.

Ég ákvað sjálf frá upphafi að þiggja enga styrki frá fyrirtækjum, en ég hef þó þegið föt að láni frá íslenskum hönnuðum og ég þigg sjálfboðavinnu við framboðið, eins og t.d. heimasíðugerð og ljósmyndun. Ég hef ekki leitað til fólks að öðru leyti en því að birta upplýsingar um bankareikning á heimasíðunni minni og inn á hann hafa komið 26 þúsund krónur í stuðning frá tveimur einstaklingum :) og ég þakka þeim kærlega fyrir framlögin sem koma til með að greiða fyrir kostnað við lén og hýsingu heimasíðu og bensín http://www.andreaolafs.is/studningur/

Á lokaspretti kosningabaráttunnar auglýsir einn frambjóðandi mjög víða. Það er eðlileg krafa kjósenda að vita hvaðan peningarnir koma sem greiða svo dýrkeyptar auglýsingar til að styðja þann frambjóðanda í embætti forseta – embætti sem er og verður alltaf pólitískt í eðli sínu þar sem það er hluti af stjórnskipan landsins. Allir forsetar í sögu lýðveldisins hafa tekið hápólitískar ákvarðanir. Það er líka pólitík að taka ekki afstöðu eða að ætla ekki að nota málskotsrétt fólksins (nema í neyðartilvikum). Málskotsrétturinn er fullkomlega lýðræðislegt tæki þjóðarinnar til ákvarðanatöku um stór mál og þarf enga neyð til að virkja hann

Eins hljóta kjósendur að eiga kröfu á að vita hvaðan peningar til sitjandi forseta koma. Aðrir frambjóðendur hafa eflaust minna fjármagn á bakvið sig, en eðlilegt að allir gefi það upp.

http://www.andreaolafs.is/pistlar/allir-frambjodendur-opni-bokhald-sitt-fyrir-kosningar/




Fleiri fréttir

Sjá meira


×