Sport

Hrafnhildur komin með farseðilinn í 200 metra bringusundi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir úr Sundfélagi Hafnarfjarðar mun keppa í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í London í sumar.

Hrafnhildur náði besta tíma sínum í sundinu, 2:27.11 mínútum, á Mare Nostrum-móti í Frakklandi í upphafi júní. Það var vel undir OST-lágmarkinu sem hún hafði þegar náð og aðeins 22/100 frá OQT lágmarkinu 2:26.89 mínútur.

Alþjóða sundsambandið gaf í gær út lista yfir þá keppendur sem hlutu Ólympíusæti með því að ná OST-lágmarkinu. Hrafnhildur var með næstbesta tíma þeirra sex sem boðin hefur verið þátttaka í 200 metra bringusundinu.

Auk Hrafnhildar mun Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Ægi keppa í 200 metra baksundi og Sarah Blake Bateman, einnig úr Ægi, í 50 metra skriðsundi.

Þær stöllur verða svo ásamt Evu Hannesardóttur í boðsundsveit Íslands í 4x100 metra fjórsundi kvenna. Það verður í fyrsta skipti sem íslensk sveit keppir í boðsundi á Ólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×