Sport

Michael Phelps rétt slapp inn í úrslitin í einni sinn bestu grein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Phelps.
Michael Phelps. Mynd/Nordic Photos/Getty
Bandaríkjamaðurinn Michael Phelps var áttundi og síðastur inn í úrslitin í 400 metra fjórsundi þegar undarrásirnar fóru fram í morgun á fyrsta degi sundkeppni Ólympíuleikanna í London. Það var ekki það eina óvænta í morgun því Ólympíumeistarinn í 400 metra skriðsundi, Park Tae-hwan, var dæmdur úr leik og Heimsmethafinn í sömu grein, Paul Biedermann, komst ekki í úrslitin.

Michael Phelps hefur unnið fjórtán gull á síðustu tveimur Ólympíuleikum og vann 400 metra fjórsundið bæði í Aþenu og í Peking. Phelps vann reyndar sinn riðil á 4:13.33 mínútum en það er rétt tæplega tíu sekúndum lakari tími en þegar hann setti heimsmetið sitt í Peking fyrir fjórum árum.

„Það eina sem skiptir máli var að komast í úrslitin. Maður getur ekki unnið gullið í undanrásum. Ég bjóst ekki við að þeir syntu svona hratt í hinum riðlunum og ég synti líka hægar en fyrir fjórum árum," sagði Michael Phelps eftir sundið.

Ólympíumeistarinn í 400 metra skriðsundi, Park Tae-hwan, vann sinn riðil en var síðan dæmdur úr leik fyrir þjófstart. Heimsmethafinn Paul Biedermann, verður heldur ekki með í úrslitunum í kvöld því hann náði ekki einum af átta bestu tímunum í undanrásunum.

Úrslitin í 400 metra fjórsundi karla og 400 metra skriðsundi karla fara fram í kvöld en þá verður einnig keppt um gullið í 400 metra fjórsundi kvenna og í 4 x 100 metra boðsundi kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×