Sport

Phelps kominn með tuttugu Ólympíuverðlaun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Bandaríkjamaðurinn Michael Phelps vann til gullverðlauna í 200 metra fjórsundi á Ólympíuleikunum í kvöld. Hann varð um leið fyrsti karlmaðurinn til þess að sigra í sömu greininni þrenna leika í röð.

Phelps kom í mark á tímanum 1:54.27 mínútum en í öðru sæti varð landi hans Ryan Lochte á 1:54.90 mínútum.

Phelps varð í vikunni sigursælasti Ólympíufarinn í sögunni þegar hann vann til sinna nítjándu verðlauna á Ólympíuleikum. Því má segja að Phelps sé farinn að auka forskot sitt með tuttugustu verðlaunum sínum á Ólympíuleikum.

Fyrr í kvöld missti Lochte af gullinu í 200 metra baksundi. Landi hans, Tyler Clary, kom fyrstur í mark og sá til þess að Lochte tókst ekki að verja titil sinn frá því í Peking fyrir fjórum árum.

Lochte leiddi sundið stærstan hluta þess en missti Clary fram úr sér á síðasta fjórðungnum.

Þá vann hollenska sundkonan Ranomi Kromowidjojo sigur í 100 metra skriðsundi. Kromowidjojo átti fimmta besta tímann í undanúrslitunum en átti vel inni í úrslitasundinu.

Hún var í fjórða sæti þegar sundið var hálfnað, gaf í á seinni hlutanum og setti Ólympíumet á sléttum 53 sekúndum.

Kromowidjojo, sem er á 22. aldursári, var í gullsveit Hollands í 4x100 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í Peking fyrir fjórum árum.






Tengdar fréttir

Phelps með fleiri Ólympíuverðlaun en 148 lönd heimsins

Bandaríski sundmaðurinn Michael Phelps endurskrifaði Ólympíusöguna í gærkvöldi þegar hann vann sín 18. og 19. verðlaun á Ólympíuleikum. Phelps vann fyrst silfur í 200 metra flugsundi og svo gull í 4 x 200 metra skriðsundi. Hann er búin að vinna 15 gull, 2 silfur og 2 brons.

Phelps sá sigursælasti allra tíma á Ólympíuleikum

Bandaríkjamaðurinn Michael Phelps nældi í sín 19 verðlaun á Ólympíuleikum þegar hann og boðsundsveit Bandaríkjanna kom fyrst í mark í 4x200 metra skriðsundi karla. Fyrr í dag hlaut Phelps silfurverðlaun í 200 metra flugsundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×