Innlent

Segir Bjarna Bene­dikts­son sæta grófum að­dróttunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður.
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður.

„Ég hef nú séð margar grófar aðdróttanir í gegnum tíðina af hálfu blaðamanna á Íslandi en ég hef aldrei séð að maður hafi verið borinn jafn alvarlegum sökum lengi og þessi fyrirsögn gefur til kynna," segir Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður, við Reykjavík síðdegis, um fyrirsögn sem birtist á forsíðu DV í gær um skýrslutöku yfir Bjarna Benediktssyni í Vafningsmálinu. Skýrslutakan fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudaginn.

Fyrirsögnin á forsíðu DV var „Bjarni játar fölsun" en í fréttinni segir að Bjarni hafi viðurkennt að hafa skrifað undir skjöl sem voru dagsett aftur í tímann þegar hann tók þátt í endurfjármögnun Glitnisbréfa Þáttar International. „Af fréttinni að dæma gerði Bjarni ekki annað en það að skrifa nafn félags undir skjal í umboði sem hann hafði þannig að undirskrift hans er ekki fölsuð. Efni skjalsins sem er lánasamningur sem hann kom ekki að gerð að, er ekki að því er virðist falsað," segir Sigurður.

Í máli Sigurðar G. Guðjónssonar kom fram að það sem skipti öllu máli sé það að efni allra skjalanna sé rétt og undirritun Bjarna er rétt. „Þá skiptir það ekki sköpum fyrir skjalið hvort undirskriftin sé áttundi eða ellefti," segir Sigurður G. Guðjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×