Innlent

Segir eftirlitið hafa brugðist í saltmálinu

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir matvælaeftirlit hafa brugðist vegna sölu Ölgerðarinnar á iðnaðarsalti til matvælaframleiðslu.

„Ég hef aldrei farið í launkofa með þá skoðum mína að það þarf að herða eftirlit í landinu. Um leið þarf einnig að herða kröfur um vinnubrögð í framleiðslu því að þar gerast brotin," segir Jóhannes.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gagnrýnir einnig þá ákvörðun Matvælastofnunar að hafa heimilað Ölgerðinni að selja afgangsbirgðir af iðnaðarsalti eftir að upp komst um málið.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að ábyrgðin liggi fyrst og fremst hjá innflytjanda og framleiðendum sem nota vöruna. „En þar með er ekki sagt að eftirlitsaðilar hafi ekki mátt standa sig betur."

Jón Gíslason, forstjóri MAST, segir í samtali við Fréttablaðið að þegar málið kom upp hafi Ölgerðin spurt hvort selja mætti þær birgðir sem eftir voru.

„Við gerðum ekki athugasemd við það, svo framarlega að kaupendur yrðu upplýstir um málið. Við vorum ekki með neinar upplýsingar um að varan væri skaðleg heilsu manna. Varan hefur svo verið hér á markaði til fjölda ára og það var spurning hvort þessi eina vika breytti nokkru." - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×