Fótbolti

Manchester-liðin draga sviðsljósið að Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester-liðin United og City hafa verið í nokkrum sérflokki í ensku úrvalsdeildinni í vetur en slakt gengi í Meistaradeildinni þýddi að báðum liðunum mistókst að komast í sextán liða úrslitin.

Þess í stað taka þau þátt í Evrópudeildinni og það er óhætt að segja að tvö bestu lið enska boltans dragi sviðsljósið að Evrópudeildinni þegar 32 liða úrslitin hefjast í dag.

Ensku meistararnir í Manchester United eru mættir til Amsterdam í Hollandi þar sem þeir mæta Ajax klukkan 18.00 að íslenskum tíma en þetta verður fyrsti Evrópuleikur Manchester United síðan 1995 sem er ekki í Meistaradeildinni.

Topplið Manchester City er komið til Portúgals þar sem liðið mætir FC Porto klukkan 20.05 í kvöld. Annar mjög athyglisverður leikur í kvöld er leikur Stoke og spænska liðsins Valencia á Britannia en hann hefst á sama tíma og City-leikurinn. Stoke-liðið hefur haft hugann við leikinn að undanförnu enda búið að tapa fjórum deildarleikjum í röð.

Kolbeinn Sigþórsson getur ekki verið með Ajax vegna meiðsla en tvö önnur Íslendingalið eru á ferðinni í kvöld. Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í AZ Alkmaar fá Anderlecht í heimsókn klukkan 18.00 og Birkir Bjarnason og félagar í Standard Liège sækja Wisla Krakow heim til Póllands klukkan 20.05.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×