Tíska og hönnun

Ittala skoðar íslenska hönnuði

Sölusýningin DesignMatch fer fram í Norræna húsinu í tengslum við Hönnunarmars. Hugmyndin er komin frá Max Dager, forstjóra Norræna hússins, og munu hönnunarhús á borð við Ittala og Design House Stockholm munu sækja sýninguna. fréttablaðið/anton brink
Sölusýningin DesignMatch fer fram í Norræna húsinu í tengslum við Hönnunarmars. Hugmyndin er komin frá Max Dager, forstjóra Norræna hússins, og munu hönnunarhús á borð við Ittala og Design House Stockholm munu sækja sýninguna. fréttablaðið/anton brink
DesignMatch er haldin í Norræna húsinu í þriðja sinn þann 23. mars. Sýningin er haldin í tengslum við HönnunarMars og í ár taka nokkur stærstu hönnunarhús Norðurlandanna þátt í henni.

Meðal þeirra hönnunarhúsa er taka þátt í DesignMatch eru finnska fyrirtækið Iittala, hið sænska Design House Stockholm, One Collection og DFTS Factory. Íslenskir hönnuðir fá þar með tækifæri til að hitta norræna kaupendur og framleiðendur og kynna fyrir þeim íslenska hönnun.

Helga Viðarsdóttir, markaðsstjóri Norræna hússins, segir sölusýninguna hafa tekist vel undanfarin tvö ár og að ýmis viðskiptatengsl hafi orðið til vegna hennar. „Kaupendur frá þessu hönnunarhúsum mæta og skoða verk eftir efnilega, íslenska hönnuði og ýmist kaupa hugmyndina af hönnuðinum eða kaupa vöruna til að selja í verslun sinni. Samningarnir sem gerðir eru fara eftir óskum hvers og eins en það þykir gott tækifæri að komast að hjá þessum húsum,“ útskýrir Helga.

Fjölmargir íslenskir hönnuðir óskuðu eftir þátttöku í ár en Hönnunarmiðstöðin sá um að velja hóp þátttakenda. Hugmyndin að DesignMatch er komin frá Max Dager, forstjóra Norræna hússins, og segir hann viðburðinn eiga að stuðla að nýjum viðskiptatengslum milli hönnuða og framleiðenda. „Um sextíu hönnuðir sendu inn umsókn fyrir um 100 vörur og ég vona að einhverjir samningar verði gerðir í kjölfarið,“ segir Max að lokum. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.