Gagnrýni

Perlan skín enn

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Bíó. Titanic. Leikstjórn: James Cameron. Leikarar: Leonardo DiCaprio, Kate Winslet, Billy Zane, Gloria Stuart, Bill Paxton, Frances Fisher, Kathy Bates, Danny Nucci, David Warner.



Árið 1997 var stórmyndin Titanic frumsýnd, en hún varð fljótt tekjuhæsta kvikmynd allra tíma og sópaði að sér öllum helstu verðlaunum sem hægt var að fá. Í myndinni tvinnaði leikstjórinn James Cameron saman raunveruleika og skáldskap, og segir hún frá forboðinni ást tveggja ungmenna um borð í farþegaskipinu RMS Titanic, en um þessar mundir eru liðin 100 ár síðan þetta sögufræga skip fórst í jómfrúarsiglingu sinni eftir árekstur við ísjaka. Af því tilefni er myndinni nú varpað aftur á tjaldið hvíta, og í þetta sinn í þrívídd.

Með tíð og tíma hefur það færst í aukana að fólk geri grín að myndinni og tali hana niður. Hún sætir ásökunum um langdregni og væmni, og sykurhúðað stafastef Céline Dion er ofspilað barn síns tíma. Þá hefur margoft verið vísað í ýmis atriði myndarinnar í þágu sprells, og af þeim sökum er til dæmis ómögulegt að horfa á þau Ljónharð og Kötu leika flugvél í stafni skipsins án þess að flissa í hljóði.

En takist manni að leiða hjá sér lummulegustu atriðin stendur traustbyggð mynd eftir (án þess að ég fari út í fyrirsjáanlegt líkingamál um hrákasmíðina RMS Titanic). Sjálfur skipsskaðinn er gífurlegt sjónarspil og þó að tæknibrellurnar séu 15 ára gamlar þá eldast þær ágætlega. Þrívíddin er smekklega unnin og mínimalísk en spilar stærra hlutverk í seinni hlutanum. Winslet er glæsileg og hleypir lífi í það sem hefði auðveldlega getað orðið þreytt steríótýpa, og mikið ofboðslega er DiCaprio myndarlegur. Hann var líka fínn leikari, þótt hann sé enn betri í dag.

Það er gaman að fá þessa perlu aftur í bíó. Hún fjallar um atburði sem áttu sér stað í upphafi síðustu aldar, en er um leið góð heimild um áherslur í kvikmyndagerð undir lok hennar. Einlægnin var meiri, kaldhæðnin minni og Leonardo DiCaprio var miklu sætari. Og að sjá hann svona í þrívídd er það næsta sem þú kemst því að knúsa hann í alvörunni. Er hægt að selja þetta betur?

Niðurstaða: Titanic stenst tímans tönn. Taktu með þér tissjú og ekki skammast þín fyrir neitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×